Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 9. 2013 | 08:45

Viðtal við Íslandsmeistarann í holukeppni 2013 – Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur: „Markmiðið á European Ladies að komast í B riðil“

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, varð nú á dögunum Íslandsmeistari í holukeppni, 2. skiptið á ferlinum, en hún vann Íslandsmeistaratitilinn einnig árið 2011.  Íslandsmótið fór að þessu sinni fram á Hamarsvelli í Borgarnesi, dagana 21.-23. júní 2013.

Frá því að Ólafía Þórunn varð holumeistari hefir hún ekki gert endaleppt.

Þann 26. júní varð hún ein af 6 sem hlaut styrk úr Forskoti afrekssjóði kylfinga og var hún eini kvenkylfngurinn sem hlaut styrk nú í ár.

Næst sigraði Ólafía Þórunn á móti í Danmörku;  Team Rudersdal Open mótinu, sem fram fór dagana 29.-30. júní í Furesö Golfklub og nú í dag, 9. júlí  hefur hún leik ásamt 5 öðrum íslenskum stúlkum á European Ladies mótinu. Íslensku keppendurnir sem þar keppa ásamt Ólafíu Þórunni eru klúbbfélagar hennar Sunna Víðisdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir og Keiliskonurnar Signý Arnórsdóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Anna Sólveig Snorradóttir.

Hér fer viðtalið við Ólafíu Þórunni: 

Nú ert þú Íslandsmeistari í holukeppni 2013, eftir sigur á Tinnu Jóhannsdóttur, GK 2&1 á Hamarsvelli í Borgarnesi. Árið 2011 varðstu líka Íslandsmeistari í holukeppni eftir sigur á Signýju Arnórsdóttur, GK 6&5 á Strandarvelli, Hellu. Hvor viðureignin er auðveldari í þínum huga og af hverju?

Ég myndi segja að 2011 var auðveldari útaf þvi að eg var að spila allt mótið frábært golf og undir pari í hverjum leik sem ég spilaði. Ég for líka erfiðari leið i ár, þar sem fyrsti leikurinn minn var á móti Guðrúnu Brá og eg var alls ekki i léttum riðli.

Þú settir niður 6 metra glæsipútt fyrir Íslandsmeistaratitlinum í Borgarnesi – hvernig var tilfinningin þegar þú sást púttið detta?

Ótrúlega góð! Ég var búin að vera svo nálægt því að setja góð pútt í á holunum áður og þarna loksins kom að því.

Hvað var að ganga upp hjá þér í Borgarnesi – þ.e. hver telur þú að hafi verið besti hluti leiksins hjá þér á Hamarsvelli og hvað telur þú (ef eitthvað) að þurfi að bæta?

Ég setti niður nánast öll pútt i kringum 2m og styttri, sem var mjög mikilvægt. Svo var ég með gott leikskipulag og hausinn í lagi. Ég var reyndar að slæsa boltann svolítið mikið með driver og hærri kylfunum, þannig að það hefði mátt vera betra að geta átt högg sem maður treystir á, í staðinn fyrir að vita ekki alveg hvert boltinn mun fara.

Hefir þú oft leikið Hamarsvöll í Borgarnesi og hvernig fannst þér völlurinn?

Ég hafði aldrei spilað þar áður nema þegar ég spilaði æfingahring. Völlurinn var flottur, það tók mig svolitla stund að venjast greenunum.

Ætlar þú að endurtaka leikinn frá 2011 og taka báða Íslandsmeistaratitlanna, nú á „heimavelli“ þ.e. Korpunni á Íslandsmótinu í höggleik?
Það er markmiðið að standa sig vel á Korpunni og auðvitað væri það mjög gaman að eignast báða titlana.

Hvernig finnst þér breytingarnar á Korpunni þ.e. stækkunin á vellinum í 27 holu völl hafa tekist og hver er uppáhaldsholan þín á vellinum og af hverju?

Breytingarnar eru flottar og munu hjálpa til þvi völlurinn er svo eftirsóttur og gefa fleiri tækifæri að spila.

Það er erfitt að segja hver er uppáhalds holan mín. Kannski nýja holan, 5.hola á ánni, hún á eftir að verða flott. Leikmenn geta sótt á henni en samt er hún snúin.

Hver finnst þér vera aðalmunurinn á því að keppa hér á landi og erlendis?

Veður fyrst og fremst. Svo ástand á völlunum, og veðrið hefur auðvitað líka með það að segja. Svo er meiri samkeppni úti líka.

Hver eru markmiðin hjá þér í golfinu í sumar?

Í sumar er markmiðið að bæta sig. Ég tek þátt i báðum Íslandsmótunum og svo nokkrum mótum erlendis og vill standa mig vel þar. Ég náði að vinna mótið i Danmörku sem var frábært! Ég átti svo sem ekki von þvi áður en ég fór í mótið, en svo spilaði eg mjög vel miðað við aðstæður og veður. Ég meiddist i hnénu daginn sem ég fór út, örugglega útaf álagi eftir holukeppnina. Þannig að ég gat ekki slegið boltann af 100% krafti og tók alltaf u.þ.b 2 kylfur meira og var að meta aðstæður vel. Svo las eg púttin eins og spiderman þvi ég gat ekki beygt vinstra hnéð án þess að meiða mig. Núna fer EM að byrja og við stelpurnar viljum komast i B riðil!

Hver eru markmiðin hjá þér í golfinu í framtíðinni – er það að komast á einhverja mótaröðina?… og ef svo er hvar myndirðu vilja vera á Evróputúrnum eða á LPGA?

Eftir að ég útskrifast á næsta ári langar mig að reyna við einhvern túr i Evrópu. Mögulega LET.

Þú varst eini kvenkylfingurinn sem hlaut styrk úr Afrekssjóði kylfinga – Forskoti. Skiptir styrkurinn máli fyrir þig og hvernig nýtist hann þér?
Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur. Hann gefur mér tækifæri til að fara og keppa erlendis meira. Ég fæ ekkert í minn vasa en ég má nota peninginn til að borga mótsgjöld, flugferðir, hótel og svo framvegis. Allur kostnaðurinn við að fara á mót safnast saman og það er alls ekki ódýrt. Á næsta ári mun hann líka nýtast vel þegar eg reyni fyrir mér i Evrópu. Frábært að hafa einhvern að styðja við bakið á manni!