Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 8. 2013 | 19:00

Eimskipsmótaröðin (2): Viðtal við Fannar Inga Steingrímsson

Fannar Ingi Steingrímsson, GHG, er aldeilis búinn að slá í gegn úti í Eyjum leiddi eftir 1. dag 2. móts Eimskipsmótaraðarinnar, Securitas-mótinu á glæsilegu skori 5 undir pari.  Það er ekki nema vika síðan að hann sigraði á 2. móti Íslandsbankamótaraðarinnar á Hellu á skori upp á 9 undir pari, 61 höggi seinni daginn.

Í dag hélt Fannar Ingi sínu á Vestmannaeyjavelli lék á sléttu pari og er því samtals á 5 undir pari, 135 höggum, aðeins einu höggi á eftir forystumanni 2. dags Andra Þór Björnssyni, GR.

Golf 1 tók stutt viðtal við Fannar Inga:

Golf 1: Fannar Ingi innilega til hamingju með alla glæsihringina þína að undanförnu, 61 á Íslandsbankamótaröðinni og 65 högg í gær á Vestmannaeyjavelli – hvað finnst þér vera að ganga upp hjá þér?

Fannar Ingi:  Það hafa verið púttin og slátturinn hefir verið stöðugur.  Púttin voru samt ekki góð í dag.

Golf 1: Hverju þakkar þú þennan góða árangur og sérstaklega púttin þín af 3 metra færi – er það allir tímarnir hjá Einar Lyng?

Fannar Ingi:  Ég er búinn að æfa  stíft í vetur og þá sérstaklega púttin.  Með nýrri tækni hefir þetta allt verið að þróast í rétta átt. Já, ég þyrfti að fara að komast í Putt Lab-ið hjá Einar Lyng aftur þegar ég kem heim.

Golf 1: Nú var þetta frekar varfærinn hringur hjá þér í dag 2 fuglar og 2 skollar og par niðurstaðan, var þetta það sem þú lagðir upp með að vera ekki að spila of aggressívt?

Fannar Ingi:  Ég spilaði þokkalega aggressívt en það bara gekk ekki vel á flötunum. Slátturinn var í lagi  – ég hitti 16 flatir bæði í dag og í gær á tilsettum höggafjölda (þ.e. in regulation).

Golf 1: Var veðrið að hafa áhrif á spil þitt?

Fannar Ingi: Nei, veðrið var allt í lagi – kannski er það aðeins það að rigningin hefir haft þau áhrif að flatirnar eru orðnar hægar og misjafnar.

Golf 1: Hvert er planið fyrir morgundaginn?

Fannar Ingi:  Veðurspáin er ekkert allt of góð. Ég ætla bara að reyna að halda mér inni í þessu.