Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 1. 2012 | 17:00

Viðtal við Cristie Kerr um hægagang í golfleik, það að stofna fjölskyldu og af hverju litið er á hana sem ógnvekjandi leikmann

Cristie Kerr á sér marga aðdáendur hér á landi. Á mánudaginn s.l., 2. í Hvítasunnu, 28. maí 2012, var Memorial Day í Bandaríkjunum þar sem minnst er fallinna hermanna og þeirra sem þjónað hafa landi og þjóð í bandaríska hernum. Ein þeirra sem vildi leggja eitthvað af mörkum á deginum til hermanna var sú, sem er efst bandarískra kvenkylfinga á heimslistanum: Cristie Kerr, en hún er í 5. sæti.

Cristie stóð fyrir golfmóti fyrir hermenn á Liberty National golfvellinum í New York, þar sem er frábært útsýni yfir Manhattan og frelsisstyttuna.  Golfmótið var til styrktar samtökunum Wall Street Warfighters, sem hefir að markmiði að sjá hermönnum sem snúa aftur heim fyrir störfum.

Aðstoðarritstjóri Golf Magazine, Jessica Marksbury tók viðtal við Cristie, sem hér fer í aðeins styttri útgáfu:

Golf Magazine: Hver var hvatinn fyrir þig að halda þetta mót?

Cristie Kerr:  Margir fjölskyldumeðlimir mínir hafa verið í hernum þ.á.m. faðir minn sem var í hernum og gegndi störfum í Vietnam. Við vildum bara gefa tilbaka til herfylkinganna […]

Golf Magazine: Þú sinnir líka góðgerðarmálum til styrktar krabbameinsrannsóknum ?

Cristie Kerr:  Já, ef þið getið farið og kynnt ykkur hvað við erum að gera í Cristie Kerr Women’s Health Center í Jersey City, það er hægt að fara í ferð um bygginguna. Ég og mamma (en móðir Cristie greindist með krabbamein og var hvati Cristie að því að styðja við  krabbameinsrannsóknir) höldum árlegt mót hér á Liberty í Breast Cancer Awareness Month, þ.e. ár hvert í október og nokkur sl. ár höfum við safnað  $400,000-$500,000 ár hvert. Við skrifum tékka til mismunandi stofnana, sem hafa með höndum krabbameinsrannsóknir, en mest allur peningurinn rennur til  Cristie Kerr Women’s Health Center. Ég hef styrkt rannsóknir á brjóstakrabbameini frá árinu 2003 og er nú með mína eigin stofnun. Margar af vinkonum mínum á túrnum styðja mig t.a.m. Natalie Gulbis, Morgan Pressel, Brittany Lincicome og margar aðrar. Yfir 20 kylfingar koma ár hvert í mótið. Mér finnst golfið eiga rætur í góðgerðarmálum – hvert mót sem við spilum á, á túrnum leggur sitt af mörkum til góðgerðarmál. Það er frábært.

Golf Magazine: Tölum aðeins um þig það sem af er árs. Þú hefir byrjað hægt?

Cristie Kerr:  Þetta er erfitt. Golfið fer í hringi. Ég hef átt í kaddývandræðum á þessum ári – hef skipt um kaddýa nokkrum sinnum – og ég held að ég hafi koksins fundinn gæjann [Worth Blackwelder] sem verður með mér það sem eftir er árs, vonandi. Við unnum saman og með honum hef ég sigrað 5 sinnum. Þetta er erfitt vegna þess að þetta er bara eins og í öllum samböndum – það er ekki hægt að ganga út frá neinu sem gefnu. Þegar hlutirnir ganga vel og þegar þeir ganga illa veldur það stressi, þannig að ég hef barist við það.

Golf Magazine: Hversu erfitt er að vera jákvæð þegar hlutir ganga hægt. Hvernig heldur þó mótíveringunni?

Cristie Kerr: Það sem heldur mér mótíveraðri er að sigra. Ég elska að sigra og hata að tapa. Ég átti frábært ár s.l. ár og vann næstum 5 mót en varð í 2. og 3. sæti 5 eða 6 sinnum og það er pirrandi, en það er það sem mótíverar mig að halda áfram.

Golf Magazine: Þú ert þekkt sem ein af mest ógnvekjandi leikmönnunum á túrnum. Af hverju heldur þú að það sé?

Cristie Kerr: Ég er mjög áköf þegar ég keppi. Það er lítið pláss fyrir nokkuð annað þegar ég er á golfvellinum. Ég held að ég hafi lært að vera aðdáendavænni s.l. 5 eða 6 ár, vegna þess að þetta er hegðun sem hægt er að temja sér. Hjá sumum kemur þetta náttúrulega og stundum þarf maður að læra að gera hlutina betur. Ég hef alltaf haft þennan ákafa (ens.: intensity) á golfvellinum, en ég er miklu opnari og vingjarnlegri við aðdáendur en ég var áður. Ég er bara mjög áköf. Ég hugsa bara um engann annan á golfvellinum. Ég reyni að vinna vinnuna mína, gera mína hluti og ég hugsa að það hræði fólk stundum.

Golf Magazine: Þú sagðir nú nýlega að það væri mikilvægt fjölmiðlum að halda upp á stjörnur LPGA hvort sem þær væru að sigra eða ekki. Hvað áttirðu við með því?

Cristie Kerr: Það er mikilvægt. Eins og ég sagði, það ætti að halda upp á stjörnurnar og ekki gleyma þeim. Mér finnst stundum sem öll góðgerðarmálin sem ég vinn að hljóti litla umfjöllun og allar þessar góðu sögur og ef það er að koma fyrir mig ímyndið ykkur þá hvernig það er með allra hina kylfingana. Ég er ekki að segja að LPGA sinni störfum sínum ekki vel. Við getum gert betur. Við getum skarað fram úr á þessu sviði og komið skilaboðum á framfæri; þannig byggjum við upp íþróttina okar. Það er þannig sem verðlaunfé hækkar, þannig færum við túrinn á hærra plan. Við erum að þokast í rétta átt. Framkvæmdastjórinn Mike Whan og nýtt starfslið LPGA hafa unnið mikið starf s.l. ár, en við verðum að byggja á því.

Cristie Kerr - besti kvenkylfingur Bandaríkjanna og sá hæst „rankaði" á heimslistanum - Cristie er sem stendur í 5. sæti

Golf Magazine: Mikið hefir verið fjallað um hægagang í golfleik bæði á PGA og LPGA. Morgan Pressel hlaut nýlega víti í holukeppni. Hvað finnst þér um þetta?

Cristie Kerr: Ég held að víða sé pottur brotinn í þessu efni en ég er ekki endilega sammála því sem kom fyrir í holukeppninni. Mér þykir vænt um Azahara [Muñoz], hún er góð vinkona mín, en hún er hægur leikmaður, hún hefir sjálf viðurkennt að hún spili hægt. Og síðan fær Morgan vítið. Ég meina, þegar er tímataka þá er tímataka og ef maður heldur sig ekki innan markanna þá get ég ekki búið til afsakanir fyrir það, en á sama tíma þegar aðeins 4 einstaklingar eru á golfvellinum, þá hlýtur að vera pínulítið svigrúm. Ég ætla ekki að segja neitt, LPGA er að gera góða hluti. Ég var ekki þarna en bara þegar maður horfir á þetta sem utanaðkomandi þá virtist þetta vera svo ónauðsynlegt. Það var mikið um dramatík í leiknum. Það var erfitt að vera ekki þarna, en Morgan er ein af vinkonum mínum og augljóslega vil ég verja hana en ef hún var ekki innan tímamarka, þær voru varaðar við nokkrum sinnum, þá get ég í raun ekki sagt neitt.

Golf Magazine: Annika Sörenstam og Lorena Ochoa hættu á LPGA til þess að stofna fjölskyldur. Er þetta ákvörðun sem þú sérð sjálfa þig taka dag einn?

Cristie Kerr: Ég held að við getum verið með fjölskyldu og náð árangri á túrnum á sama tíma. Augljóslega er það að stofna fjölskyldu einkamál og þetta eru mál sem ég ætla ekki að ræða á þessu stigi. En ég er að verða eldri og okkur langar til að stofna fjölskyldu. Ég vil ekki hætta á næstunni, þannig að svo lengi sem ég er heilbrigð og mótiveruð vil ég spila golf.

Christie Kerr

Golf Magazine:  Þú ert besti bandaríski kvenkylfingurinn á túrnum núna og þú hefir verið nr. 1 á heimslistanum. Hvað er það sem þú vilt ná meira?

Cristie Kerr:  Augljóslega er í forgangi að sigra aftur. En ég verð að segja þetta á eins einfaldan hátt og mögulegt er: Til að sigra verður maður að slá inn á 14-15 flatir á tilskyldum höggafjölda á heilu móti, maður verður að hitta ákveðinn fjölda brauta og hljóta tilskilinn fuglafjölda. Eins einfalt og hægt er: Markmiðið er að sigra. Langtímamarkmiðin mín eru að komast í frægðarhöll kylfinga. Ég er aðeins hálfnuð á leið minni þangað og ég hef átt góðan feril fram að því en ef ég ætti að hætta í dag væri ég ekki ánægð því mér finnst eins og ég eigi eftir að gera svo margt.

Golf Magazine:  Þú ert stöðugt ein af bestu pútterunum á túrnum. Hvert er leyndarmálið?

Cristie Kerr: Að pútta er erfitt. Það hefir alltaf verið hluti af leik mínum sem er mér eðlislægur. Þetta er einn af uppáhaldsþáttum ef ekki uppáhaldsþáttur golfleiksins. Sjálfsöryggi hefir mikið að segja. Vitandi af því að hægt er að standa upp og setja niður púttið vegna þess að ef þú trúir á það þá dettur það stundum. Ritminn er virkilega mikilvægur og það að lesa flatir er virkilega mikilvægt og hraði strokunnar. Ef mikil hreyfing er á púttstrokunn verður að reyna að einfalda hlutina og einbeita sér að ritmanum og síðan fara þarna út ná því út sem þú ætlar þér með púttið. Reynið að skilja alla tækni eftir heima, þegar þið eruð á púttflötinni.

Golf Magazine:  Að lokum: Hvernig myndirðu vilja að þín yrði minnst?

Cristie Kerr: Vá, þetta hljómar eins og spurning í lok ferils míns. Ég vildi að mín væri minnst sem persónu sem var mjög áköf og ástríðufull í öllu sem hún gerði, hvort heldur það laut að golfi, mat eða drykk. Ég vil að mín sé minnst fyrir að hafa stuðlað að jákvæðum breytingum í lífi fólks hvort heldur er að hvetja það til að spila golf sem litlum krökkum, fyrir að elda fyrir það eða búa til vín eða bjarga lífi þess. Ég held að í lokin sé það að manns sé minnst fyrir að hjálpa fólki besta leiðin til þess að manns sé minnst. Það er ekki margt eigingjarnt fólk sem minnst er þannig að ég held að ég hafi einbeitt mér að því að hjálpa fólki hvort heldur það er í gegnum það að styrkja brjóstakrabbameinsrannsóknir eða önnur góðgerðarmál t.a.m. Wall Street Warfighters og Wounded Warrior Project. Ég held að það að hjálpa öðrum og veita þeim innblástur sé besta aðferðin fyrir hvern sem er ef hann vill láta minnast sín.