Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 30. 2012 | 13:30

Viðtal GSÍ við Úlfar Jónsson landsliðsþjálfara um kylfubera

Nokkur umræða hefur verið um kylfubera í Arion banka mótaröðinni, en þjálfarar sannmæltust um að vera með þau tilmæli til unglinga í flokkum 15-18 ára að vera ekki með kylfubera í þessum mótum. Úlfar Jónsson landsliðsþjálfari sendi út þau tilmæli til unglinga í afrekshópi GSÍ að vera ekki með kylfubera. Að sama skapi voru send skilaboð til allra þjálfara að þau kæmu þessum skilaboðum áleiðis til allra annarra sem kepptu í þessum flokkum.

Nú að loknu fyrsta stigamóti unglinga á Akranesi, lék okkur á golf.is forvitni að vita hvernig tekist hefði og hvort allir hefðu farið að tilmælum og spurðum Úlfar út í þessi mál.  Almennt séð fóru kylfingar eftir þessum tilmælum og mikill meirihluti lék án kylfubera. Hinsvegar var það nokkuð áberandi, sérstaklega í einum flokki stúlkna, að sumar léku með kylfubera.

Hvers vegna viljið þið að krakkarnir leiki án kylfubera? Það eru nokkrar ástæður fyrir því og það er rétt að taka fram að þjálfarar þeirra klúbba sem eiga fulltrúa í þessum mótum tóku þessa ákvörðun sameiginlega. Ein helsta ástæðan fyrir þessu er að það er mjög mikilvægt að krakkarnir fái tækifæri til að efla þroska sinn sem leikmenn og persónur og þjálfist í að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Einnig er þessi háttur hafður á hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við, s.s. norðurlandaþjóðirnar, mið-Evrópa, Bretlandseyjar og víðar. Í Bandaríkjunum leika unglingar án kylfubera í „high school“ og í háskólagolfi.

Það má geta þess að dómarar í seinasta Arion banka móti tóku vel eftir að leikhraði var betri hjá þeim hollum sem léku án kylfubera, það var tekið fram í dómaraskýrslu þeirra.

Hafði þetta einhver áhrif á árangur keppenda? Líklegast bara jákvæð áhrif. Ef við skoðum alla kylfinga í 15-18 ára flokkunum sem voru í verðlaunasætum í Arion banka mótinu þá sjáum við að þau léku öll án kylfubera. Guðrún Brá náði glæsilegum árangri þegar hún lék á 66 höggum og bætti vallarmetið um 4 högg, án kylfubera.

En nú voru nokkrir sem léku með kylfubera, þið viljið sjá þetta ganga heilt yfir ekki satt? Já, það voru ákveðin vonbrigði að nokkrir hefðu ákveðið að leika með kylfubera.Við vildum ekki setja þetta í keppnisskilmála, heldur vonuðumst til þess að fólk færi eftir því sem við þjálfararnir bæðu þau um að gera. Ég hef lítinn áhuga á einstaklingum í landsliðshópinn sem eiga erfitt með að fylgja fyrirmælum.

En ég vil líka taka það skýrt fram að við erum ekki að meina foreldrum að vera með börnum sínum. Þau geta gengið með þeim og hvatt þau áfram, þau mega einungis ekki sjá um pokann eða veita ráð.

Hvað með yngstu flokkana? Kylfuberar eru eins og áður leyfðir í flokkum 14 ára og yngri, en viljum þó  beina þeim tilmælum til kylfuberana að stýra krökkunum ekki, heldur leyfa þeim sjálfum að taka ákvarðanir varðandi leikskipulag, kylfuval ofl. Á þessum aldri er mikilvægt að þau læri af reynslunni, upplifi það að taka sjálf ákvarðanir, góðar og slæmar. Eftir hring er síðan gott að fara yfir hlutina. Sem dæmi getur kylfuberinn hjálpað í þessu ferli með því að spyrja réttu spurninganna, t.d  í stað þess að segja „það er mótvindur, taktu fimmuna“, spyrja frekar „hvaðan blæs vindurinn, er þetta rétt kylfa?“

Heimild: golf.is