Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 16. 2013 | 12:30

Monty heitir McGinley stuðningi sínum

Eftir að hafa tapað í fyrirliðakapphlaupinu hefir Colin Montgomerie lýst algerum stuðningi við Paul McGinley og boðist til þess að aðstoða hann á hvern þann hátt sem hann getur.

Í raun var Monty búinn að lýsa því yfir að hann myndi aldrei aftur taka við fyrirliðastöðunni eftir að hafa áður gegnt henni 2010 og stýrt Evrópu til sigurs í Celtic Manor.  Að vera fyrirliði er tímafrekt og mikil vinna. Það var bara eftir að þessi vitleysis orðrómur kom upp um að það þyrfti mikinn persónuleika til þess að standa við hlið goðsagnar á borð við Tom Watson, sem augu allra hvörfluðu aftur að Monty…. og hann skoraðist auðvitað ekki undan.

Síðan fóru leikmennirnir sjálfir að láta í sér heyra; það eru jú þeir sem vinna leikinn …. og þeir kunnu að meta auga McGinley fyrir smáatriðum, skipulagshæfileika hans og ástríðu fyrir leiknum; þennan hógværa, hægláta náunga, sem hafði átt svo stóran þátt í sigrum þeirra í undanförnum tveimur Ryder bikars keppnum.

Með Tom Watson hefir maður á tilfinningunni að þar fari einráður herstjóri, sem viti allt best og reyni að stýra  potindátum sínum til sigurs í orustunni.

Með Paul Ginley beinist athyglin að leikmönnunum, sem munu gera allt til þess að sýna fram á að val þeirra á fyrirliða var það rétta – það er liðsheildin + fyrirliði sem sigra; Paul McGinley stendur ekki yfir mönnum sínum heldur með þeim.

Þess vegna var hann betri kostur en Colin Montgomerie, Paul Lawrie, Sandy Lyle og Miguel Ángel Jiménez.

Colin Montgomerie sagði þannig eftir að valið á Paul McGinley sem fyrirliða lá fyrir: „Ég er alls ekki vonsvikinn – þetta myndi hafa verið draumur, en hann hefir ekki rætst. Ég var mjög upp með mér að hafa komið til greina aftur – það var mér mikils virði. En valferlið var þannig að þeir völdu besta manninn í starfið. Við munum allir fylkjast bakvið Paul núna og óskum honum velfarnaðar. Ég valdi hann til að gegna fyrirliðatöðunni í Seve Trophy og hann stóð sig vel – alveg eins og hann hefir gegnt varafyrirliðsstöðunni [í 2 Ryder bikars keppnum] vel. Hann er góður mannauðsstjóri og góður í að meta styrkleika manna. Ég mun vera þarna til stuðnings og veifa flaggi Evrópu.“

Montgomerie býr aðeins nokkra kílómetra frá Gleneagles og verður eflaust á lista þeirra sem koma til greina sem varafyrirliðar.

Aðpurður hvort hann væri bitur með hvernig valið hefði farið þá svaraði hinn 49 ára Monty: „Nei, hamingjan sanna. Það er ekkert fjær lagi.“

Aðspurður hvort hann gæti hugsað sér að verða fyrirliði í framtíðinni sagði Monty: „Aðeins ef við töpum ítrekað þá gæti ég hugsað mér að taka einn „Tom Watson“ og snúa aftur sem fyrirliði!“