Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 31. 2014 | 08:30

Vellir GR koma vel undan vetri

Fyrir helgi skrifaði Garðar Eyland eftirfarandi á heimasíðu GR:

Í morgun kl.7:10 (27/3 2014) þegar ég kom út hafði ég á tilfinningunni að vorið væri ekki langt undan, veturinn er búin að vera frekar harður fyrir starfsemi okkar kylfinga. Menn hafa haft áhyggjur af miklu frosti í jörðu og klakamyndun á golfvöllum. Snemma í janúar eða þann sjötta, var tekin sú ákvörðun hjá Golfklúbbi Reykjavíkur að mölva klakann af öllum flötum á báðum völlum klúbbsins, árangurinn af þeirri aðgerð er framar vonum. Með úrkomunni í gær leystist upp sá klaki sem eftir var og virðast flatir og brautir koma nokkuð vel undan vetri, þótt finna megi smá áverka á stökum stað.
Það hafa lyfst brúnir á mönnum og með hækkandi sól horfum við björtum augum til framtíðar, vonum við að vorið verði okkur hlýtt og gæfuríkt.

Með kveðju, Garðar Eyland.