Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 13. 2021 | 08:00

Vegas með Covid

Jhonattan Vegas hefir greinst jákvæður fyrir Covid-19 og hefir dregið sig úr móti vikunnar á PGA Tour, sem er Sony Open á Hawaii – Sjá má tvít Vegas og tilkynningu hans á samfélagsmiðlum (að vísu á spænsku) um að hann sé með Covid með því að SMELLA HÉR: 

Jhonattan fæddist í Maturín, Venezuela 19. ágúst 1984 og er því 36 ára í dag. Hann spilaði með golfliði University of Texas, gerðist atvinnumaður í golfi 2008 og fór að spila á Nationwide Tour 2009. Hann á einn sigur í beltinu á Nationwide Tour (sem nú heitir Web.com Tour) þ.e. á Preferred Health Systems Wichita Open og eins sigraði hann í móti á suður-ameríska túrnum, Tour de las Américas; Abierto de la República.

Jhonattan skaust upp á frægðarhiminn golfsins þegar hann sigraði Bob Hope Classic þ.e. 1. mótið sitt á PGA Tour 23. janúar 2011, eftir sigur á Billy Haas og Gary Woodland í bráðabana. Þetta var í 5. sinn sem Vegas tók þátt í móti á PGA Tour og í 2. sinn sem fullgiltur félagi PGA Tour. Síðan þá hefir Vegas bætt við 2 PGA Tour sigrum; á RBC Canadian Open 2016 og 2017 og eru PGA Tour sigrar hans því orðnir 3. Hann var sá fyrsti frá Venezuela til að sigra á PGA Tour.

Jonathan er 2. PGA Tour kylfingurinn til þess að draga sig úr móti á þessu ári. Jim Herman greindist jákvæður fyrir Covid, rétt áður en hann ætlaði að fara til Hawaii til að spila á Sentry TOC. Hann dró sig að sjálfsögðu úr mótinu.

Xander Schauffele og Webb Simpson voru báðir með Covid yfir hátíðarnar, en þeir jöfnuðu sig í tæka tíð til þess að spila á Maui í síðustu viku.

Það er írski Waterford kylfingurinn Seamus Power, sem kemur í stað Vegas á Sony Open.