Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 26. 2011 | 09:00

Veðrið og áhrif þess á golfið

Nú er sá tími sem nánast ekkert er hægt að spila golf hér á Íslandi – snjór og haglél skiptast á að lama umferð og það, myrkrið, slæmt skyggni og kuldi gera það að verkum að fæst okkar fara út í golf.  Þessi tími er þó e.t.v. sá mikilvægasti í golfinu á árinu. Um að gera að láta veðrið ekki hafa áhrif á sig!

Nú er að draga fram pútterinn og wedge-ana og æfa stutta spilið innandyra – sem oft situr á hakanum yfir sumartímann. Eins má fara í upphitaðan æfingabás og slá nokkur högg – best að koma sér upp rútínu og halda henni – ekki komast úr æfingu!  Eins er um að gera að fara í tíma til golfkennara og bæta úr nokkrum þáttum leiksins, sem oft situr á hakanum á sumrin, þegar skemmtilegra er að spila hvenær sem færi gefst.

Flestum langar til suðlægari landa, þar sem veður er enn skaplegt fyrir golf… og margir láta það eftir sér. Ferðaskrifstofur bjóða upp á óendanlegt úrval skemmtilegra golfferða. Síðan þarf ekkert endilega að fara í skipulagðar golfferðir – það má skipuleggja sína eigin golfferð … og jafnvel þó fjárhagurinn bjóði ekki upp á að hægt sé að fara ferðina strax, þá er þó gott að skipuleggja – vita hvert mann langar, leggja til hliðar… því það kemur að því að einn daginn sé hægt að fara.

Athuga ber að það er á fleiri stöðum en á Íslandi sem  veðrið hefir áhrif á golf – t.d. hefir golfvertíðin ekki verið góð í Bandaríkjunum og margir vallareigendur sjá á eftir fúlgum fjár í tekjumissi vegna slæms veðurs 2011.

Nokkur dæmi mætti nefna úr ágætri grein Pete Finch í Golf Digest sem nefnist: Who´ll stop the rain?

Þar er haft eftir Walter Lankau, eiganda 36 holu Stow Acres Country Club fyrir utan Boston: „Í næsta lífi ætla ég í bissness, sem veðrið hefir engin áhrif á – Það gerir mann vitlausan.“

Í sama streng tekur Joe Guerra, en fyrirtæki hans Sequoia Golf á og rekur meira en 50 golfvelli, flesta í Suðurríkjum Bandaríkjanna: „Kostnaður við vellina er mikill og vegna þess að (kostnaðar) strúktúrinn er sá sami, sama hversu margir kylfingar koma að spila, þá fara dagar þar sem aðsóknin er lítil illa með okkur.“  Í norð-austurríkjum Bandaríkjanna var vorið 2011 kalt og votviðrasamt og síðan setti hvirfilbylurinn Irene allt á annan endann – í miðríkjunum settu flóð strik í reikninginn og í Kaliforníu var rakasta sumar í manna minnum. Texas og suð-vesturríkin á hinn bóginn voru eins og steikt á pönnu svo heitt var þar.

Lankau telur að sala á golfhringjum hafi dregist saman um 20%. Fjögurra golfvalla golfstaðurinn Cog Hill Golf & Country Club nálægt Chicago seldi um 6.600 golfhringjum færri í maí  – sem er fækkun um 25% frá sama tíma 2010, að sögn eigandans, Frank Jemsek. Eins segir Jim Hinckley framkvæmdastjóri Century Golf Partners, sem rekur 24 golfvelli í Texas að golf í ríkinu hafi orðið illa úti vegna hitanna miklu. „Í Dallas vorum við með 72 daga yfir 38° C hita, sem er met.“  Efnahagskreppan í heiminum hefir og ekki hjálpað til.

„Eftir rigningar eyðum við 2-3 dögum bara í hreinsunarstörf,“ segir Dan Feehan sem á River Islands Golf Club nálægt Knoxville, Tennessee. „Það tekur tíma frá öðrum viðhaldsverkefnum og öðrum hlutum sem við gerum til að bæta golfvöllinn.“

Einn af þeim völlum sem varð hvað verst úti vegna veðurs í Bandaríkjunum var Quechee Club í Vermont ríki, en þar eyðilögðust 22 brautir á 36 holu golfvöllum staðarins í hvirfilbylnum Irene.  Ken Young framkvæmdastjóri Quechee sagði að hann hefði viljað að staðurinn hefði verið betur tryggður, en tryggingarnar dekkuðu aðeins u.þ.b. 10% kostnaðar.

Lykillinn að því að halda geðheilsu sem golfvallareigandi í Bandaríkjunum segir Frank Jemsek, eigandi Cog Hill vera (það gamalkunna) „að hafa ekki áhyggjur af því sem maður hefir enga stjórn á.“ Þetta er lexía sem Frank lærði af föður sínum, Joe Jemsek, sem keypti Cog Hill, árið 1951 (fyrir 60 árum).

Sumum finnst hins vegar slæmt veður ekki slæmt, því þá bjóða golfvellir erlendis (sem og hér á landi) afslátt af vallargjöldum. Einn klúbbur, Wilds Golf Club í Prior Lake Minnesota hefir jafnvel gengið svo langt að tengja vallargjöldin hitastigi þess dags sem spilað er á. Þau (vallargjöldin) eru nákvæmlega hitastigið 30 mínútum áður en spilað er (á Fahrenheit).

 Heimild: Golf Digest – janúar 2012

Lesa má grein Golf Digest á ensku í heild með því að smella HÉR: