Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 27. 2018 | 10:00

Vatnaboltar

Sá sem kaupir notaða og endurunna golfbolta skaðar leik sínum.

Erlendis sérstaklega, en líka hér á Íslandi, er nokkuð um að boðnir séu svokallaðir „vatnaboltar,“ (ens.: lakeballs) til sölu.

Erlendis er til sérstök starfsgrein golfboltakafara, sem hefir atvinnu af því að kafa aðallega í vatnshindrunum golfvalla og endurheimta bolta sem lent hafa þar, oft flottir boltar, sem því miður eru búnir að liggja í vatni um lengri eða skemmri tíma.

Erlendis er algengt að vatnaboltar séu boðnir til sölu á Internetinu eða golfboltakafarar selja fyrirtækjum boltanna, sem endurvinna þá síðan.

Vatnaboltar eru almennt ódýrari (þeir eru keyptir í miklu magni) og hægt að spara allt að 50% af verði nýrra golfbolta; sem 3 saman í öskju eru dýrir, þegar litið er til þess að þeir gætu allir týnst á einum hring.

Það lítur út fyrir að allir græði, golfboltakafarar, fyrirtækin sem endurvinna boltana og bjóða þá síðan til sölu og síðan kaupandinn.

En í raun eru það oftast aðeins tveir fyrrgreindu sem græða eitthvað; kaupandinn, ja hann veit ekkert hversu lengi vatnaboltarnir hafa legið í vatninu.

Nýir, flottir golfboltar eiga að geta þolað að liggja nokkra daga í vatni, en þeir eru e.t.v. búnir að liggja mun lengur og þá eru gæðin ekki lengur til staðar.

Hversu lengi boltar þola að vera í vatni geta jafnvel framleiðendur ekki sagt til um, því það er komið undir mörgum þáttum t.a.m. hitastigi vatnsins, lofthita, járnmagni í vatni o.fl. o.fl.

Frederick Waddell, yfirframkvæmdastjóri Golf Ball Product Management hjá Titleist ræður frá því að nota vatnabolta t.a.m. í mótum. Nútíma golfboltar eru oftar en ekki búnir til úr nokkrum efnalögum. Eftir að hafa legið í vatni breytast þessi lög og sagði Waddell m.a.: „Þetta er þá orðinn allt annar bolti.“

En auðvitað er líka hægt að vera heppinn og fá bolta sem aðeins hefir legið öfáar klst í vatni – en þetta er bara eins og að vinna í lottó.