Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 19. 2012 | 20:15

Vandræði stjarnanna á Opna breska

Það eru allir kylfingar, sem lenda í vandræðum í golfi einhvern tímann og þar eru golfstjörnurnar, bestu kylfingar heims, sem eru að spila á risamótum engin undantekning.  Þeir lenda líka, eins og við í aðstæðum, sem eru vandræðalegar eða óvenjulegar.

T.d. í dag lenti t.a.m. Ástralinn Aaron Townsend í brautarglompu og ákvað að nota pútter til þess að koma sér frá kanti glompunnar því hann náði ekki almennilegri sveiflu með neinni annarri kylfu. Hljómar þetta kunnuglega?

Lee Westwood notaði ekki pútter í glompunni sem hann lenti í en þar sem hann gat ekki slegið rétthent sneri hann fleygjárni sínu við og sló örvhent.  Hann var hvorki ánægður með höggin 73 í dag né spurninguna sem fréttamenn spurðu um glompuatvikið. Svar hans:

„Ja, ég æfi þetta öllum stundum að slá örvhent þarna úr bönkernum,“ sagði hann. „Ég get ekki munað hvenær ég þurfti að slá örvhent högg, hvað þá úr sandglompu.“

Keegan Bradley lenti í vandræðum á 14. braut þar sló hann högg úr karganum „óleikhæfa“ í enn þykkari karga. Hann ákvað að taka víti og fékk skramba á holuna.

Það var Rory McIlroy sem lenti í því að þessu sinni að teighögg hans lenti í höfðinu á áhorfanda, Jason Blue, frá Bristol í Englandi. Sá hlaut dúndrandi höfuðverk og ….. hanska sem Rory áritaði og gaf honum.  „Það góða er að það er í lagi með hann,“ sagði Rory um Jason.

Phil Mickelson átti einfaldlega slæman dag, hann fékk m.a. skramba á par-5 7. brautinni og á par-4 8. brautinni lenti teighögg hans í sandglompu. Hann náði boltanum upp úr bönkernum en var síðan á öllum fjórum að leita að honum í karganum háa.  „Ég var í raun að leita að honum 10 cm frá þeim stað þar sem hann lá og gat ekki fundið hann,“ sagði Phil Mickelson. „En það er bara svona sem karginn er hér, maður má einfaldlega ekki lenda í honum.“

Brasilíumaðurinn knái, Adilson Da Silva sem stóð sig ágætlega í dag sagði síðan: „Það er óttalegt þarna úti. Ef maður lendir í böker, verður maður að fara upp úr til hliðar og halda áfram.“

Byggt á grein í Golfweek.