Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 20. 2019 | 23:00

Valdís Þóra á góðar minningar frá Bonville – hefur leik kl. 01:50 í nótt

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL, hefur leik aðfaranótt fimmtudagsins 21. febrúar á LET, Evrópumótaröð kvenna.

Leikið er í Ástralíu á Bonville en þaðan á Valdís Þóra góðar minningar. Hún náði sínum besta árangri á LET Evrópumótaröðinni á þessu móti fyrir ári síðan, þar sem hún endaði í þriðja sæti.

Það er jafnframt besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á atvinnumótaröð í efsta styrkleikaflokki.

Valdís Þóra hefur leik kl. 01.50 aðfaranótt fimmtudags að íslenskum tíma eða 12:50 að staðartíma í Ástralíu. Hún hefur síðan leik á öðrum keppnisdegi kl. 20:40 að íslenskum tíma fimmtudaginn 21. febrúar eða 07:40 að staðartíma í Ástralíu.

Á facebook síðu sína skrifaði Valdís Þóra:

Góðan daginn,
Næsta mót byrjar á morgun og ég á rástíma kl 12:50 (01:50 isl tíma) af fyrsta teig. Við erum að spila á Bonville Golf Resort rétt fyrir utan Coffs Harbour og völlurinn er einn minn uppáhalds í Ástralíu. Hrikalega flottur völlur! Á föstudaginn á ég svo rástíma kl 7:40 (20:40 ISL tíma) af 9unda teig.
Ég hlakka til að byrja á morgun. Þið getið fylgst með skorunum á www.ladieseuropeantour.com

Fylgjast má með gengi Valdísar Þóru með því að SMELLA HÉR: