Justin Rose tekur við sigurbikar US Open
Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 17. 2013 | 01:30

US Open: Justin Rose fyrsti enski sigurvegarinn í 43 ár!

Enski kylfingurinn Justin Rose er sá fyrsti  frá Englandi til að sigra US Open risamótið í 43 ár.  Hann lék á samtals 1 yfir pari, 281 höggi (71 69 71 70) og átti 2 högg á þá sem næstir komu.  Þetta er fyrsti risamótstitill Rose.

Á 18. braut lenti teighögg Rose aðeins 3 metra frá frægum platta sem reistur var til minnis um sigur Ben Hogan á Merion 1950. „Þegar ég kom yfir hæðina og sá boltann minn liggja á miðri brautinni hugsaði ég með mér „þetta er tækifærið mitt,“ Þetta var ég að slá á miðja brautina,“sagði Rose eftir að sigurinn var í höfn.

Og eins og venjulega var sigurinn á kostnað aumingja Mickelson, en hann var búinn að leiða mestallt mótið.

Phil Mickelson varð í 6. sinn í 2. sæti nú ásamt hinum ástralska Jason Day.  Þeir léku báðir á samtals 3 yfir pari, hvor. „Hjartað í mér er brotið,“ sagði Phil eftir að úrslitin voru ljós. „Það er erfitt að kyngja þessu eftir að hafa komist svo nærri sigri. Þetta var besta tækifærið mitt af þeim öllum. Ég var að spila á velli sem mér líkaði virkilega.  Mér fannst þetta vera gott tækifæri ég gæti ekki hafa beðið um það betra.  Þetta er virkilega sárt.“

Billy Horschel. Ernie Els, Hunter Mahan og Jason Dufner deildu 4. sætinu á samtals 5 yfir pari, hver. Aðeins 1 höggi á eftir þeim voru Steve Stricker og Luke Donald, sem deildu 8. sætinu.

Nr. 1 á heimslistanum Tiger Woods var ekki að vinna 15. risamótssigurinn sinn í þetta sinn en hann var á samtals 13 yfir pari og deildi 32. sætinu ásamt þeim Bubba Watson og KJ Choi og 6 öðrum.  Nr. 2, Rory McIlroy var 1 höggi á eftir Tiger og deildi 41. sætinu með 3 öðrum sem allir voru á 14. yfir pari.

Hér má sjá heildarúrslitin á 113. US Open, 2013 SMELLIÐ HÉR: