Ragnheiður Jónsdóttir | október. 24. 2016 | 12:30

Úrtökumót f. LPGA: Ólafía Þórunn T-12 og komin á lokaúrtökumótið!!!

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur úr GR, lauk keppni í gær á 2. stigi úrtökumótsins fyrir stærstu atvinnumótaröð heims í kvennaflokki, LPGA mótaröðina í Bandaríkjunum.

Úrtökumótið ber heitið: LPGA and SYMETRA Tour Qualifying School – Stage II.

Úrtökumótið fór fram á Plantation golfsvæðinu í Venice, Flórída, í Bandaríkjunum.

Alls tóku 192 keppendur þátt og var leikið á tveimur keppnisvöllum, sem kallast Bobcat og Panther.

Keppnisfyrirkomulagið var með þeim hætti að leiknar voru 72 holur eða fjórir keppnishringir á fjórum dögum.

Þeir kylfingar sem urðu í einu af 80 efstu sætunum komast áfram á lokaúrtökumótið eða 3. stigið. Þeir tryggðu sér jafnframt keppnisrétt á Symetra mótaröðinni sem er næst sterkasta atvinnumótaröðin í Bandaríkjunum í kvennaflokki. Ólafía Þórunn er sem sagt búin að tryggja sér keppnisrétt á SYMETRA TOUR, sem er stórglæsilegt!!! …. og er jafnframt komin á lokaúrtökumótið, sem venju skv. fer fram í desember.

Ólafía Þórunn lék  á samtals sléttu pari, 288 höggum (72 73 71 72).

Í efsta sæti á úrtökumótinu varð norska frænka okkar Marianne Skarpenord en hún var í nokkrum sérflokki, lék á 11 undir pari. Hún hafði 5 högga forskot á ensku stúlkuna Bronte Law sem varð í 2. sæti á 6 undir pari og Angel Yin sem varð í 3. sæti á 5 undir pari, en Angel Yin komst í golfréttirnar m.a. hér á  Golf 1  2012, þegar hún aðeins 13 ára tók þátt í US Women´s Open (sjá með því að SMELLA HÉR:)

Mjög sterkir og/eða þekktir keppendur kepptu á 2. stigi úrtökumótsins auk Ólafíu Þórunnar, m.a. Mel Reid frá Englandi, sem átt hefir sæti í Solheim Cup liði Evrópu; hin bandaríska Kathleen Ekey sem þykir þar að auki einn kynþokkafyllsti kvenkylfingur heims (sjá með því að SMELLA HÉR:),  annar írsku golfsnillingstvíburana Leona Maguire; Aditi Ashok frá Indlandi, sem sigraði á lokaúrtökumóti LET 2016 (sjá kynningu Golf 1 á henni með því að SMELLA HÉR:) og Isi Gabsa frá Þýskalandi (sjá kynningu Golf 1 á Isi með því að SMELLA HÉR:) svo örfáar af mörgum séu nefndar en þessar 5 fyrrgreindu komust auk Ólafíu og 74 öðrum keppendum á lokaúrtökumót fyrir sjálfa LPGA mótaröðina.  Það er vonandi að við fáum að sjá Ólafíu Þórunni „okkar“ þar!!!

Sjá má lokastöðuna á 2. stigi úrtökumótsins fyrir LPGA með því að SMELLA HÉR: