Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 19. 2017 | 20:00

Úrtökumót f. LET: Guðrún Brá komst g. niðurskurð!!!

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili er í 59. sæti fyrir lokahringinn á lokaúrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröðina. Guðrún Brá er á +1 samtals (74-70-70-75) eða 289 höggum. Skorið var niður fyrir lokahringinn og fær hún því að spila hann. Guðrún Brá  þarf að leika vel á lokahringnum í dag (miðvikudaginn 20. desember) til þess að komast í hóp 25 efstu sem fá keppnisrétt á LET.

Guðrún Brá komst örugglega í gegnum fyrra stig úrtökumótsins sem fór einnig fram í Marókkó líkt og lokaúrtökumótið.

Þetta er sjötta árið í röð þar sem lokúrtökumótið fer fram í Marokkó og úrslitin ráðast þann 20. desember.

Alls eru 106 keppendur frá 18 þjóðum sem keppa á tveimur völlum, Amelkis og Palm Golf Ourika Marrakech. Alls eru leiknir fimm 18 holu hringir og komast 60 efstu áfram á lokahringinn.

Alls komast 25 efstu á LET Evrópumótaröðina. Fimm efstu komast í styrkleikaflokk 5b og þær sem enda í sætum 6.-25. verða í styrkleikaflokki 8a.

Þetta er í fyrsta sinn sem Guðrún Brá reynir fyrir sér á úrtökumótinu fyrir LET. Alls eru 53 leikmenn á úrtökumótinu sem eru í fyrsta sinn á lokaúrtökumótinu.

Hér er hægt að fylgjast með gangi mála hjá Guðrúnu Brá SMELLIÐ HÉR: 

Guðrún Brá er fjórði íslenski kylfingurinn sem kemst í lokaúrtökumótið hjá LET Evrópumótaröðinni. Ólöf María Jónsdóttir braut ísinn fyrst allra á sínum tíma með því að tryggja sér keppnisrétt á LET.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir fylgdu síðan í kjölfarið og Guðrún Brá gæti því orðið fjórða íslenska konan sem tryggir sér keppnisrétt á mótaröð þeirra bestu í Evrópu.

Texti: GSÍ