Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 13. 2012 | 08:30

Úrslit í Sveitakeppni GSÍ – 5. deild karla – GÞ og GÞH spila í 4. deild að ári! Björgvin Jóhannesson fór holu í höggi og Guðbjörn Ólafsson setti nýtt vallarmet

Sveitakeppni GSÍ í fimmtu deild karla fór fram á golfvelli GKV laugardaginn, 11. ágúst s.l.. Logn og léttur úði var á laugardeginum og greip mótsstjórn til þess ráðs að spila báðar umferðirnar eða alls 36 holur á laugardeginum.

Í 5. deild karla í ár spiluðu 6 sveitir í ár: GHH, GKS, GKV, GVS, GÞ og GÞH.

Eftir fyrri umferðina skyldi 1 högg að efstu þrjár sveitirnar. Rétt til þátttöku áttu Golfklúbbur Siglufjarðar, Golfklúbbur Vatnsleysustrandar, Golfklúbbur Þorlákshafnar, Golfklúbbur Hafnar í Hornafirði, Golfklúbbur Víkur í Mýrdal og Golfklúbburinn Þverá, Hellishólum. Keppnisfyrirkomulag var höggleikur án forgjafar og mátti hver sveit tefla fram fimm keppendum og töldu fjögur bestu skor.

Hola í höggi og vallarmet

Björgvin Jóhannesson, GKV. Mynd: Í einkaeigu.

Mótið byrjaði með látum og Björgvin Jóhannesson GKV náði holu í höggi á 3ju braut, sem er 137 metra löng par 3 hola. Guðbjörn Ólafsson GVS átti frábæran dag og setti hann nýtt vallarmet í Vík þegar hann spilaði fyrri umferðina á 69 höggum eða þremur undir pari. Guðbjörn spilaði fyrri níu holurnar á 33 höggum og seinni níu á 36 höggum.

Sveit GVS: F.v.: Hallberg Svavarsson, Guðbjörn Ólafsson – Hann setti nýtt og glæsilegt vallarmet á GKV vellinum!!!! Til hamingju!!!!! – Snorri Snorrason – Vantar nöfn á næstu tveimur, Lengst t.h:Pétur Friðriksson. Mynd: Í einkaeigu

Eftir harða og drengilega baráttu stóð sveit Þorlákshafnar uppi sem sigurvegari og spilaði á samtals 665 höggum. Í öðru sæti varð sveit Hellishóla með 671 högg og í þriðja sæti Vogamenn á 685 höggum. Gestgjafarnir urðu í fjórða sæti og Siglufjörður í því fimmta, en Hornafjörður hafði hætt við þátttöku skömmu áður en mótið hófst.  Það er því ljóst að Þorlákshöfn spilar í 4. deild á næsta ári ásamt sveit Hellishóla.

Texti: Af heimasíðu GKV á golf.is