Martin Kaymer eftir einn sigurinn í Abu Dhabi
Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 12. 2015 | 14:00

Upprifjun á sigri Kaymer í Abu Dhabi 2011

Nú í vikunni hefst Abu Dhabi HSBC Golf Championship, en það er mót vikunnar á Evróputúrnum.

Förum aftur til mótsins 4 ár aftur í tímann.  Það ár varð Þjóðverjinn Martin Kaymer sá fyrsti til þess að sigra í mótinu ár eftir ár, en það ár, 2011, vann hann í Abu Dhabi í 3. skipti og 2. árið í röð.

Meðal keppenda þá var Lee Westwood, sem þá var nr. 1 á heimslistanum.

Nánasti keppninautur unga Þjóðverjans (Kaymer) var hins vegar Rory McIlroy, sem þó varð heilum 8 höggum á eftir Kaymer, sem þá var á undraverðu metheildarskori upp á 24 undir pari, 264 högg.

Kaymer velti með sigrinum 2011 Tiger Woods úr 2. sæti heimslistans en í dag er Kaymer í 12. sæti heimslistans.

Gaman að rifja upp hvað Kaymer sagði eftir sigurinn í Abu Dhabi 2011: „Þetta er fullkominn golfvöllur fyrir mig.  Ég lít á hann sem minn heimavöll. Ég spila alltaf vel hér.  Ef maður sigrar strax þá er það ávísun á gott keppnistímabil.  Ég hitti fullt af brautum og púttin mín voru ótrúleg!“

Kaymer er meðal keppenda í ár, 2015 og verður fróðlegt að sjá hvort hann sigri í 4. sinn í Abu Dhabi; en Kaymer átti frábært ár 2014 þar sem hann sigraði m.a. eftirminnilega á Opna bandaríska og á the Players, sem oft er nefnt 5. risamót golfsins.