Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 21. 2013 | 11:30

Íslandsbankamótaröðin (1): Af 18 verðlaunasætum fóru 6 til GKG, 6 til GK, 4 til GHD og 4 til GR – Myndasería

Í gær lauk keppni á 1. móti sumarsins á Unglingamótaröð Íslandsbanka, móti þar sem veður setti svip sinn á keppnishald, en mótinu var frestað sunnudaginn 19. maí og framhaldið  og lokið í gær, mánudaginn 20. maí 2013.  Fyrsta mót Íslandsbankamótaraðarinnar fór fram hjá GÞ í Þorlákshöfn.

Þátttakendur voru alls 130, þar af luku 120 keppni (29 konur og 101 karl).

Golf 1 var á staðnum og má sjá myndaseríu frá mótinu með því að SMELLA HÉR: 

Þrátt fyrir frekar erfiðar aðstæður til keppnishalds, vegna veðurs, voru nokkur góð skor. T.a.m. tókst Óðni Þór Ríkharðssyni, GKG, einum keppenda að spila Þorláksvöll undir pari, þ.e. á glæsilegum 3 undir pari, 68 höggum seinni keppnisdag. Óðinn Þór var líka með besta skor yfir alla keppendur samtals 142 (74 68).  Í 2.-5. sæti  yfir besta skor allra í mótinu var Henning Darri Þórðarson, GK á samtals 145 höggum (72 73) ásamt Aroni Snæ Júlíussyni, GKG (74 71); Birgi Birni Magnússyni, GK (72 73) og Gísla Sveinbergssyni, GK (71 74).

Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, stóð sig best af kvenkyns keppendum og varð í 6. besta skorinu yfir mótið allt sem er sérlega glæsilegt!

Af verðlaunasætunum 18 (þ.e. 1.-3. sæti í hverjum flokki) fóru  6 til GKG, 6 til GK, 4 til GHD og 4 til GR.  Sumir kunna að velta fyrir sér hvernig 20 einstaklingar rúmast í 18 sætum en það er af því að 3 drengir urðu jafnir í 2.-4. sæti og 2 telpur jafnar í 3.-4. sæti.

Athygli vekur góð frammistaða Norðanmanna í Golfklúbbnum Hamar á Dalvík (GHD) og má segja að frábært uppbyggingastarf Árna Jónssonar og Heiðars Davíðs, meðal barna og unglinga sé svo sannarlega að skila árangri. En eins og alltaf er góð frammistaða alltaf undir einstaklingnum komin og því eru Dalvíkingar bara einfaldlega þar að auki með frábæra keppendur, sem gaman er að fylgjast með í mótum!  Dalvíkingar eiga tvö efstu sætin í flokki 14 ára og yngri stráka og efsta sætið í flokki 14 ára og yngri stelpna. Auk þess tók Dalvík 2. sætið í flokki 15-16 ára telpna.

GR-ingar eiga þá konu sem stóð sig best af öllum kvenkyns keppendum í flokki telpna 15-16 ára og varð í 6. sæti yfir allt mótið, sem er stórglæsilegt!  Eins aðra í sama flokki sem varð í 3.-4. sæti og svo tóku GR-ingar 2. og 3. sætið í flokki 14 ára og yngri stelpna.  Greinilega sterkir kvenkylfingar að koma upp hjá Golfklúbbi Reykjavíkur.

Flesta sigurvegara eiga þó GK-ingar og GKG-ingar, eða 6 hvor.

Þeir í GKG tóku öll verðlaunasætin í flokki 17-18 pilta og 2 efstu sætin í flokki 17-18 ára stúlkna og áttu þar að auki sigurvegarann í flokki 15-16 ára, Óðinn Þór, sem var á besta skorinu yfir allt mótið!

Hefð er fyrir góðu barna og unglingastarfi í Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði, en Keilismenn tóku: 3. sætið í flokki 14 ára og yngri stráka; 2.4. sætið í flokki 15-16 ára drengja; 3. sætið í flokki 15-16 ára telpna og 3. sætið flokki 17-18 ára stúlkna. Keilismenn voru þeir einu sem áttu sigurvegara í öllum aldurshópum, sem sýnir vel breiddina í starfinu.

Sé hins vegar aðeins sigurvegararnir teknir þ.e. þeir sem urðu í 1. sæti þá fengu GKG-ingar 3 slíka, GHD-ingar 2 slíka og GR-ingar 1 sigurvegara.

Sjá má heildstæða skrá yfir sigurvegara í hverjum flokki fyrir sig hér að neðan: 

Sigurvegarar í flokki 14 ára og yngri stelpna:

1. sæti    Ólöf María Einarsdóttir              GHD 83-87=170+28

2. sæti    Gerður Hrönn Ragnarsdóttir      GR 89-91=180 +38

3 .sæti    Sóley Edda Karlsdóttir              GR 92-97=189+47

Sigurvegarar í flokki 14 ára og yngri stráka:

1. sæti  Kristján Benedikt Sveinsson GHD 71-79=150+8

2. sæti Arnór Snær Guðmundsson GHD  74-78=152+10

3. sæti Aron Atli Bergmann Valtýsson  GK  76-79=155+13

Sigurvegarar í flokki 15-16 ára telpna

1 sæti    Ragnhildur Kristinsdóttir             GR 74-75=149 +7

2 sæti    Birta Dís Jónsdóttir                    GHD 88-80=168 +26

3.-4. sæti  Hafdís Alda Jóhannsdóttir           GK 89-86=175 +33

3.-4. sæti  Saga Traustadóttir                     GR 82-93=175 +33

Sigurvegarar í flokki 15-16 ára drengja

1. sæti  Óðinn Þór Ríkharðsson GKG 74-68=142 0

2.-4. sæti Henning Darri Þórðarson GK  73-72=145+3

2.-4. sæti Birgir Björn Magnússon GK  72-73=145+3

2.-4. sæti Gísli Sigurbergsson,   GK  71-74=145+3

Sigurvegarar í flokki 17-18 ára stúlkna:

1. sæti    Gunnhildur Kristjánsdóttir          GKG 81-77=158 +16 (eftir bráðabana)

2. sæti    Særós Eva Óskarsdóttir             GKG 76-82=158 +16 (eftir bráðabana)

3. sæti    Anna Sólveig Snorradóttir           GK 82-79=161 +19

Sigurvegarar í flokki 17-18 ára pilta:

1. sæti    Aron Snær Júlíusson                    GKG 74-71=145 +3

2. sæti    Egill Ragnar Gunnarsson             GKG 73-81=154 +12

3. sæti    Ragnar Már Garðarsson               GKG 75-81=156 +14