Matteo Manassero
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 30. 2011 | 22:00

Ungi, ítalski ástríðukylfingurinn: Matteo Manassero II. hluti

Í júníblaði Golf World 2011 er stórskemmtilegt viðtal við unga, ítalska undra-kylfinginn Matteo Manassero, sem varð 18 ára 19. apríl s.l. vor.

Hér er annar hlutinn af fimm  þar sem stiklað er á því helsta í viðtalinu:

Það er eitt sem allir taka eftir þegar þeir kynnast Matteo Manassero, en það er hversu þroskaður hann er, þannig að hann virðist mun eldri en árin segja til um.  Kannski stafar það af því að hann er einkabarn. Kannski ekki. En hvað um það framkvæmdastjóri R&A bað Matteo t.d., þá 16 ára. að halda ræðu fyrir nefnd í Kaupmannahöfn, sem átti á ákveða hvort golf yrði íþróttagrein á Olympíuleikunum 2016. „Ég held ég hafi aldrei verið jafn stressaður,“ sagði Matteo um hina stuttu ræðu sína sem hann hélt á ensku.

En það eru líka félagarnir á túrnum, sem taka eftir því hve fullorðinslegur Matteo er. Þannig sagði Alvaro Quiros t.d. um hann: „Þegar maður talar við Matteo, þá finnst strax að hann er ekki venjulegur 17 ára (nú 18 ára) náungi.“ „Hann er eldri, a.m.k. 30 ára.“

Stereótýpurnar, sem settar eru fram um ítalska skapgerð, þ.e. að hún sé tilfinningarík, hvatvís og adrenalínfyllt og hafa verið taldar meðal ástæðna að Ítölum gengur ekki vel í golfi hafa aldrei átt við Matteo.  Í sigrum hans og jafnvel þegar hann hefir tapað, t.d. í holukeppninni við Luke Donald í vor 3&2 hefir Matteo haldið í heiðri gamalt ítalskt orðatiltæki: „La calma é la virtú dei forti“ (í lauslegri íslenskri þýðingu: Rólyndið er dyggð hins sterka.“ „Foreldrar mínir kenndu mér að vera jafnlyndur.“ sagði hann. „Ef maður er eins og Martin Kaymer þá er það auðveldara, en ég tel mig líkari honum en Alvaro.“

Fyrsti kennari Matteo var Franco Maestroni í Garda Golf Club (sjá grein um þann klúbb á Golf 1 28/9 s.l.) en hann byrjaði í tímum hjá honum 5 ára gamall. „Ég man að gripið, staðan og baksveiflan urðu að vera fullkomin, alltaf og þannig lagði hann grunninn.“ sagði Matteo. „Allt þetta er enn í mér vegna þess að Franco kenndi mér svo vel. Ég verð bara að þakka honum fyrir það.“