Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 23. 2012 | 23:00

Um mikilvægi þess að hugsa jákvætt í golfi

Sálfræðingar í Purdue University hafa komist að áhugverðu tilbrigði við því gamalkunna að hugsa verði jákvætt. Þeir nefna það styrk jákvæðrar upplifunar/skynjunar: Þeir (sálfræðingarnir) hafa sýnt fram á að hægt sé að bæta golf með því að trúa því að markið (ens.: target), sem miðað sé á sé stærra en það er í raun og veru.

Jessica Witt sem rannsakar samband upplifunar/skynjunar og árangurs ákvað að beina sjónum sínum að golfi – sérstaklega hvernig holan kemur kylfingum fyrir sjónir, eftir því sem spilað er vel eða illa.

Hún tók stórt spjald með sér á golfvöllinn með hringjum í mismunandi stærð teiknuðum á það. Sumir hringirnir voru á stærð við golfholuna aðrir voru stærri og enn aðrir minni. Þegar kylfingarnir kláruðu hringi sína sýndi hún þeim spjaldið sitt og bað þá að velja hringina sem svöruðu til stærð holunnar eins og þeir upplifðu hana.

Hún fékk jafnframt skorið hjá viðkomandi kylfingum og eftir á hóf hún útreikninginn:  „Kylfingarnir sem stóðu sig betur og voru á lægra skori völdu stærri hringi en þá sem raunveruleg stærð holunnar var,“sagði Witt. Góðu kylfingarnir höfðu ofmetið stærð holunnar um 10-20%.

En síðan velti Witt því fyrir sér hvort hægt væri að nýta sér þennan mun á upplifun eða skynjun til þess að bæta leik kylfinganna. Þannig að hún gerði tilraun. Á tilraunastofu sinni bjó hún til gerviflöt og með sjónbrellum var golfholan látin virðast minni eða stærri en hún raunverulega var.

Brellan fólst í því að varpa smáum ljóshringjum í kringum holuna til þess að láta hana virðast stærri eða stærri hringjum ljóss þannig að hún (holan) virtist smærri. Þetta er sjónbrella sem nefnist „the Ebbinghaus Illusion“ og er hægt að sjá hér að ofan.

Þessir ljóshringir höfðu ekki áhrif á púttin; þeir höfðu aðeins áhrif á hvernig fólk skynjaði holuna,“ sagði Witt. Holan sjálf breytti aldrei um stærð.

Í niðurstöðum, sem Witt birti í  Psychological Science var eftirfarandi ljóst: „Þegar fólk upplifði holuna stærri en hún var, settu þeir niður fleiri pútt.“ Witt telur að breyting á upplifun/skynjun, þ.e. að láta fólki finnast verk auðveldara en það er muni leiða til betri árangurs í mörgum öðrum tilvikum.

Upplifun/skynjun og sjálfsöryggi í öðrum athöfnum

„Ofangreint er ekki bara bundið við íþróttafólk“ sagði Witt. „Þetta á við alla í allskyns mismunandi verkefnum. T.d. að ef þarf að ganga upp hæð til þess að komast í vinnu og viðkomandi er þreyttur eða orkustig hans er lágt og hann þarf þar að auki að bera þungan bakpoka, þá virðist hæðin brattari og fjarlægðin meiri og það eru ekki bara íþróttamenn sem upplifa það þannig heldur flestir.“

Með jákvæðri skynjun eða upplifun kemur sjálfsöryggi – ef hæðin virðist ekki of brött (ef sá þáttur er ekki miklaður upp) eða á sama hátt ef golfholan virðist stærri en hún raunverulega er, þá færir þessi breytta skynjun fólki sjálfsöryggi.

En það eru líka gagnrýnisraddir við kenningu Witt.

Tim Woodman, sem er yfirmaður  the School of Sport, Health and Exercise Science í Bangor University í Wales, segir að a.m.k. hvað íþróttafólk snerti þá tryggi einungis það, að hafa meira sjálfstraust, ekki endilega toppárangur.

„Það er bara ekki svo einfalt að segja: því sjálfsöruggari þó ert því betri ertu,“ segir hann. „Það er því sjálfsöruggari sem þú ert því betri … upp að vissu marki.“ Hann segir að sjálfsöryggi sé mikilvægt, en efasemdir um sjálfið geti reynst gagnlegar, líka.

„Ef maður er góður í einhverju en hefir sínar efasemdir um sig, þeim mun líklegri er hann til að reyna aðeins meira á sig,“ segir hann. „En á móti ef hann er sjálfsöruggur og veit að hann er góður í einhverju, þá er allt eins mikil hætta á að hann slaki á og fari yfir á einhverja sjálfstýringu og muni þá ekki standa sig vel.“ (Innskot: Kannast einhver við Tiger hér? Það var oft eins og hann væri á einhvers konar sjálfstýringu)

Woodman segir að toppíþróttamenn finni rétta jafnvægið milli sjálfsöryggis og óvissu til þess að ná toppárangri.

Heimild: NPR