Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 21. 2013 | 10:30

Um grein Michael Kelly: „Góðar ástæður fyrir golfklúbbum þar sem körlum er einum veitt félagsaðild“ (2/5)

Ein af ástæðunum, sem Michael Kelly nefnir  í grein sinni í The Scotsman: „Good reasons for male-only clubs“  (Lesa má greinina með því að SMELLA HÉR:)  fyrir tilverurétti golfklúbba þar sem aðeins karlmenn mega eiga félagsaðild að er að það sé ekki ólöglegt að útiloka konur. M.ö.o. löggjafinn bannar ekki klúbba þar sem konum er bannað að gerast félagar.

Það má m.a. sjá í eftirfarandi setningum í grein hans; í upphafi: Male-only clubs have the legal right to keep out women and while it is legal, they must not be persecuted for excercising it  (Lausleg þýðing: Golfklúbbar sem einungis heimilar körlum félagsaðild hafa lagalegan rétt til að útloka konur og meðan að það er löglegt skal ekki ofsækja þá fyrir að neyta þess réttar síns)…

og síðan í lok greinarinnar: „The male only club proudly stands for the old view. It may or may not be right. But it is not illegal.“ (Lausleg þýðing: Golfklúbbar sem einungis heimila karlmönnum félagsaðild standa stoltir fyrir gömul gildi. Þau eru e.t.v. rétt eða röng. En þau eru ekki ólögleg.)

Það er rétt hjá Kelly og eflaust veigamestu rök hans fyrir að óréttlætið (að konum er bönnuð félagsaðild að „men-only“ golfklúbbum) heldur lýði. Rétturinn til þess að stofna félög þ.á.m. golfklúbba, nýtur lagaverndar og ekki bara hvaða laga sem er, heldur nýtur hann verndar æðstu laga allra laga,  stjórnarskrárinnar.  Það eru mannréttindi að stofna félög/klúbba og vera félagi í klúbbi.  Á Íslandi eru hins vegar líka þau mannréttindi skráð í stjórnarskrá að karlar og konur skulu njóta sömu réttinda í hvívetna.  Hvort mannréttindaákvæðið skyldi þá vera rétthærra?

Það er auðvitað ekki heimilt að stofna félög í hvaða tilgangi sem er. Glæpafélög eru t.d. bönnuð eða félög sem hafa á stefnuskrá sinni að brjóta lög.  Það verður ekki annað séð en að golfklúbbar sem útiloka konur séu félög sem brjóta lög og ekki hvaða lög sem er heldur jafnréttisákvæðið í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar, æðstu réttarheimildar íslenska ríkisins. Það verður því ekki séð að klúbbar sem útilokuðu konur á Íslandi nytu lagaverndar.  Annað mál er hins vegar ekki verður séð að óheimilt sé að stofna slíka klúbba sem aðeins karlar eru í og má benda á ýmsa félagsskapi karla þar sem einungis þeir eru félagar, t.a.m. frímúrarar, Lions o.s.frv. en það er aftur efni í aðra grein.

Við erum hér að ræða grein, sem Michael Kelly skrifaði í The Scotsman. Skotar eru enn hluti af breska heimsveldinu og lúta því bresku krúnunni. Flestir klúbbar sem eru „men-only“klúbbar í Skotlandi eru konunglegir þ.e. með Royal fremst í heiti sínu sbr. t.a.m. Royal Burgess, sem Kelly minnist á í grein sinni og Royal & Ancient Golf Club, þar sem vagga golfíþróttarinnar er. Sá klúbbur útilokar konar frá því að gerast félagar að klúbbnum þó þær fái að spila á öllum völlum klúbbsins, t.a.m. St. Andrews. En félagar mega þær ekki vera!  Þær mega bara spila sem gestir félagsmanna eða gegn því að greiða flatargjald

Þessu vill núverandi forsætisráðherra Skotlands, Alex Salmond, sem er mikill aðskilnaðarsinni, breyta. Hann léði orðum sínum vægi með því að mæta ekki á Opna breska 2013, sem að þessu sinni fór fram á Muirfield í Gullane, í Skotlandi en þar er konum bannað að gerast félagar í klúbbnum. Eins fordæmdi hann golfklúbba þar sem einungis karlmenn geta gerst félagar.  Afnám konunglegrar íhaldsemi og forréttinda fylgir yfirleitt meira jafnrétti a.m.k. er það sögulega sannað.

Að lokum:  Hvernig er það?  Á að setja lög sem banna félög þ.á.m golfklúbba að útiloka konur sem félaga?

Þess er e.t.v. brýn þörf í löndum sem Skotlandi, þar sem vagga golfíþróttarinnar er.

Hér á landi  segir hvergi í lögum að félög sem útiloka konur séu bönnuð.  Hins vegar segir t.a.m. heldur hvergi í lögum að glæpafélög séu bönnuð, það þykir sjálfsagðara.  Það er hnykkt á því í Stjórnarskrá að heimilt sé að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi og eins má banna félag sem hefir ólöglegan tilgang. Því má vel halda fram að óþarfi sé að setja lög sem banna félög þ.á.m. golfklúbba sem útiloka konur sem félaga, því mismunun á grundvelli kynferðis er þegar ólögeg á Íslandi. M.ö.o. á Íslandi  er ólöglegt ef konur og karlar njóta ekki jafns réttar í hvívetna, sbr. 65. gr. Stjórnarskrár nr. 33/1944, m.a. jafns réttar til að ganga í golfklúbb og vera félagi þar. Aðrar þjóðir mættu taka sér Ísland til fyrirmyndar hvað lagasetninguna snertir. Hvernig lögin eru í framkvæmd er síðan annað mál!