Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 19. 2013 | 13:00

Um grein Michael Kelly: „Góðar ástæður fyrir golfklúbbum þar sem körlum er einum veitt félagsaðild“ (1/5)

Michael Kelly skrifar grein í The Scotsman, sem á frummálinu heitir „Good reasons for male-only clubs.“  Lesa má greinina með því að SMELLA HÉR: 

Þar dregur Kelly fram ýmis rök til stuðnings tilverurétti golfklúbba þar sem aðeins karlmenn mega eiga félagsaðild að.

Rökin eru hefðbundin þar týnir Kelly fyrst til venjuna, sbr. („It takes a powerful argument to overcome that length of tradition and none has so far been found to overwhelm the preferences that these clubs express.“ – Lausleg þýðing: Það þarf sterk rök til þess að fella burt svo langa venju og að svo komnu hafa engin (rök) fundist, sem eru sterkari en sá framdregni valkostur, sem þessir klúbbar kjósa (þ.e. að útloka konur frá því að vera félagsmenn)).  Golfklúbbar þar sem karlmenn einir hafa mátt eiga félagsaðild að, hafa jú verið starfræktir  í hundruðir ára – af hverju ætti að breyta nokkru?  A.m.k. virðist þurfa mikið til þess að breyta nokkru sbr. viðtal við Peter Dawson, framkvæmdastjóra R&A SMELLIÐ HÉR: 

Þess mætti líka geta að fyrir aðeins rúmum 100 árum máttu aðeins karlmenn kjósa – af hverju átti að breyta nokkru? Venjan þar áður var að aðeins karlmenn kusu.

Í Arabalöndum mega konur ekki keyra bíl, ein rökin fyrir því er að það valdi meiri slysahættu og eins það sé heilsuspillandi fyrir konur að sitja við stjórn ökutækis.  Samt eru konur að berjast fyrir því þó venjan hingað til hafi verið að einungis karlmenn keyri bíl. Arabískir karlmenn sneiða þar að auki þægindalega hjá allri vestrænni tölfræði um að konur eru í mun færri tilvikum aðilar að bílslysum en karlmenn, enda almennt varkárari.

Þess ber að geta að spænski rannsóknarrétturinn var afnuminn 1834 vegna þess að ekki þótti lengur tilhlýðilegt að knýja fram játningar hjá saklausu fólku til þess að síðan mætti refsa því t.a.m. með því að brenna það lifandi á báli, ef það var í andstöðu við stefnu spænskra stjórnvalda.  Já, það eru bara tæp 180  ár síðan að Spánverjar breyttu þessu!

En hvað kemur spænski rannsóknarrétturinn golfklúbbum við sem einungis leyfa karla sem félagsmenn?  Jú, það er vegna þess að venjan í sjálfu sér getur ekki verið ein af rökum fyrir að viðhalda einhverju sem er óréttlátt, meiðandi og vanvirðir grundvallarmannréttindi. Og hér er komið að því sem Kelly nefnir – hann segir að hingað til hafi engin sterk rök fundist gegn því að meina konum aðild að golfklúbbum – hér verða vörpuð fram ein af fjölmörgum rökum, en eflaust sú veigamesta: það er einfaldlega brot á grundvallarmannréttindum að meina konum aðild að golfklúbbum.

Hlutum hefir verið breytt í mannkynssögunni til þess að gera veröldina sem við búum í að réttlátari stað.  Hvað ef spænski rannsóknarrétturinn hefði ekki verið afmuminn 1834?  Hvað ef einhver hefði þá fallið fyrir þeim rökum að venjan hefði fest hann í sessi – hann var jú stofnaður 1478 – af hverju að afnema eitthvað sem reynst hafði ágætlega í 300 ár?  Þá væri enn verið að beita þumalskrúfum, tækjum til að strekkja á fólki, tæki til að skrúfa skrúfu hægt og rólega inn í höfuðkúpu viðkomandi „sakamanns“ það væri enn verið að pynta fólk með tækjum og tólum spænska rannsóknarréttarins á Spáni (draumalandi margra kylfinga) – það væri enn verið að brenna fólk lifandi á báli á Spáni sem eitt form refsingar ríkisins, árið 2014!… allt sem við í dag viljum ekki því þessar aðferðir eru í einu orði mannréttindabrot.

Það sama er að segja um það að leyfa konum ekki að gerast félagsmenn í golfklúbbum – útiloka helming mannkyns á jafn hlægilegum rökum og venjunni.  Það er mannréttindabrot. Það er brot gegn kvenmönnum. Allt sem er gamalt er ekki endilega gott.  Spænski rannsóknarrétturinn var t.a.m. ekki góður. Og því sem ekki er nógu gott breytum við.

Ef konum væri nú eins og hendi væri veifað leyft að gerast félagsmenn í öllum golfklúbbum um allan heim (sem er enn fjarlægur draumur, en það  eru þó sem betur fer enn nokkrir draumaóramenn á meðal okkar) þá er næsta öruggt að kylfingar árið 2200 væru að furða sig á því að aðeins væru liðin rúm 180 ár frá því konum voru veitt þau sjálfsögðu mannréttindi á við karlmenn að mega ganga í hvaða golfklúbb sem væri í veröldinni og e.t.v. öðrum stjörnukerfum. Kannski að árið 2200 séu vangaveltur golfþinga af hverju svo fáar konur stundi golfíþróttina þá líka um leið úr sögunni.

Haldið verður áfram hér á Golf 1 í öðrum 4 greinum að sundurgreina nokkur rök Michael Kelly fyrir því að golfklúbbar þar sem einungis karlar megi gerast félagsmenn skuli og eigi vera við lýði.