Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 24. 2012 | 19:45

Um góða siði á golfvöllum – Leikhraði

Það er fátt jafnergilegt og að vera í bið á eftir holli, sem neitar manni um að fá að fara fram úr jafnvel þótt færri séu í hollinu manns og hollið á undan séu eins og hægfara skjaldbökur. Hér rifjaðist upp grein sem ég skrifaði fyrir tæpum 2 árum:

„Sigurður Geirsson, alþjóðagolfdómari R&A, sagði […] að eima mætti siðareglur golfsins í 3 einkunnarorð: snyrtimennsku, heiðarleika og tillitsemi.

Enda kemur það heim og saman við upphafskafla (1. kafla) golfreglubókarinnar, sem ber yfirskriftina „Golfsiðir. Hegðun á vellinum” að það er ríkjandi meginregla að „alltaf (eigi) að sýna öðrum á vellinum tillitsemi,” m.a. með því “að trufla ekki leik þeirra með því að hreyfa sig, tala eða vera með óþarfa hávaða.”

Kylfingum ber að vera heiðarlegir því „golf er að mestum hluta leikið án umsjónar dómara til úrskurðar eða eftirlits. Íþróttin byggir á réttsýni einstaklingsins að taka tillit til annarra og hlíta reglunum. Allir leikmenn ættu alltaf að sýna yfirvegaða framkomu dæmigerða fyrir kurteisi og íþróttaanda, án tillits til hve keppnissinnaðir þeir eru. Þetta er andi golfíþróttarinnar.”

Hvað viðvíkur snyrtimennskunni þá er ekki bara átt við að kylfingar eigi að vera í snyrtilegum golfklæðnaði heldur einnig alla umgengni við golfvöllinn, þ.e. hún á að vera snyrtileg.

Tilefni þessarar greinar eru 2 atvik sem átt hafa sér stað með skömmu millibili á golfvöllum hérlendis og varða siðareglurnar um leikhraða. Verður fjallað um annað tilvikið í dag (leikhraða) en hitt (það „að slá á kylfinga fyrir framan sig“ ) á morgun.

Í öðru tilvikinu er um að ræða 1 kylfing með 4 manna holl fyrir framan sig (umfjöllun í dag) og síðan rétt 4 kylfinga til þess að fá að taka fram úr öðru 4 manna holli (á morgun). Horfa siðareglurnar eins við í þessum tilvikum?

Réttlætið - justicia - er blint oft á tíðum!

Um leikhraða segir í 1. kafla golfreglubókarinnar:
„Leikmenn ættu að leika á góðum hraða. […]
Það er skylda leikhópsins að fylgja eftir leikhópnum á undan.
Tapi hann heilli holu og tefji leikhópinn næstan á eftir, ætti hann að bjóða þeim hóp að fara fram úr, án tillits til fjölda leikmanna í hópnum. Þegar leikhópur hefur ekki tapað heilli holu, en það er ljóst að hópurinn á eftir getur leikið hraðar, ætti hann að bjóða hópnum, sem leikur hraðar að fara fram úr.”

Þann 4. apríl 2008 skrifaði Sigurður Geirsson, alþjóðadómari R&A eftirfarandi um leikhraða á golfspjall.is:

„Ein af nýjungunum í tengslum við golfreglurnar í ár er að nú telst 1 leikmaður vera holl á vellinum ef hann er að leika einn. Hér áður fyrr var reglan sú að 2 í holli áttu mestan rétt, síðan 3 þá 4 og 1 leikmaður átti engan rétt og varð að víkja fyrir öllum öðrum. Nú hefur þessu verið breytt með nýjum siðareglum sem tóku gildi fyrir 4 árum síðan þannig að það er leikhraði sem ræður því hver á mestan rétt á vellinum. Til viðbótar þessu hefur síðan St. Andrews áréttað það að leikhraðinn sé það sem ræður og að 1 aðili sé holl, sem þá væntanlega leikur hraðast og á þá allan rétt á vellinum. Siðareglurnar opna hins vegar fyrir það að golfklúbbarnir geti sett reglur um umferð á vellinum.
Mér vitanlega hafa engir klúbbar sett svoleiðis reglur og framfylgt þeim og hefur leikhraði oft verið vandamál, bæði í daglegu spili á völlunum og líka á mótum þrátt fyrir að sérstök ákvæði séu um leikhraða í keppnisskilmálum.
Í framhaldi af þessu datt mér í hug þar sem ég veit að nánast allir hafa lent í því að vera 5-6 tíma að leika 18 holur, að kalla eftir því hjá mönnum hvað þeim finnist að klúbbarnir eigi gera til að auka leikhraða á völlunum og hvernig standa ætti að því að fá klúbbana til að grípa til þeirra aðgerða??????
Hvað segja menn um þetta????”

[…]

Fyrra atvikið, sem ætlunin er að fjalla um, er eftirfarandi:

Kona nokkur lenti í því um daginn á ónefndum golfvelli í Mosfellsbæ, að vera að spila ein með 4 manna karlaholl á undan sér, sem voru ekkert á því að bjóða “hollinu” á eftir þeim, þ.e. konunni að fara fram úr. Tekið skal fram að konan og 2 mannanna fjögurra voru með svipaða forgjöf. Konan lenti í bið alveg frá 1. teig og var 3 klst að spila fyrstu 9 holurnar – sem er ríflegur sá tími sem það hefði tekið hana að spila allar 18 holurnar hefði ekki verið fyrir þá sök að karlarnir hleyptu henni ekki framúr. Hún minntist siðareglnanna um leikhraða og orðalagsins að hollið á undan “ætti að bjóða henni” að fara fram úr en, svo mikið fyrir kurteisi og tillitsemi þessara herramanna, það gerðist aldrei. Þeir gáfu í ef eitthvað var, svo virtist sem þeir ætluðu sko alls ekki að sleppa konunni fram úr sér. Þar sem hún var ein í hollinu var ekki um annað að ræða en að bíða ítrekað þolinmóð eftir að allir 4 leikmennirnir væru búnir að pútta, slá síðan inn á flöt og vera komin á hælana á þeim aftur á næsta teig. Á 9. braut missti konan þolinmæðina sló á karlana, sem voru á flöt á par-4 braut, tók á sig 2 aukahögg, til þess að trufla þá sem minnst og valda engri hættu, þ.e. hún sló ekki í átt að flöt heldur langt til hliðar við hana. Næsta braut var par-3 og þar bað hún þá kurteisislega um hvort hún mætti ekki fara fram úr þeim. Því var mætt með spurningum um af hverju hún hefði ekki sameinast hollinu á eftir henni, öðrum 3 mönnum – reyndar flaug konunni það í hug – en hún hvarf frá því þar sem henni virtust þeir ekkert vilja spila við sig. Hún bað mennina afsökunar á að hafa slegið á þá, sagðist hafa reynt að gera það þannig að sem minnst truflun væri af, hún væri nú á hraðferð enda búin að bíða eftir að þeir lyku leik allar 9 brautirnar á undan, án þess að þeir hleyptu henni fram úr. Þeir svöruðu með að alger óþarfi hefði verið af henni að slá á þá og hleyptu henni fram úr með miklum fýlusvip. Mennirnir bitu síðan úr skömmina með því að gala háum rómi á eftir eftir henni að hún yrði að drífa sig fyrst hún væri á svona mikilli hraðferð, svo þeir tefðust ekki hennar vegna!

Í þessu dæmi er algerlega ljóst skv. golfreglum R&A að konan átti forgang og karlarnir brutu siðareglur með því í fyrsta lagi að “bjóða henni ekki að fara fram úr” mun fyrr, fremur en að fara í einhverja karlrembukeppni um að þeir 4 væru betri og hraðari en hún; í annan stað brutu þeir siðareglur með því að vera ókurteisir og tillitslausir þegar konan loks bað um að mega fara fram úr þeim og í þriðja lagi með því að trufla leik hennar og annarra á vellinum með háreystum eftir að hún var farin fram úr.

Það er kristaltært skv. reglum R&A að 1 kylfingur á vellinum á allan rétt – karlarnir áttu skv. siðareglum að hleypa konunni fram úr.

Tillitsleysi karlanna stafar af því að bjóða konunni ekki að fara fram úr mun fyrr – þegar þeir taka eftir því að hún er á eftir þeim  og bíður heilar 9 brautir. Ókurteisi karlanna stafar af málþófinu, þegar konan ber upp spurninguna hvort hún megi fara fram úr – þá varðar ekkert um af hverju hún spilar ekki við einhverja aðra sem eru á eftir henni.

Jafnvel þótt siðareglur tali um að hollið á undan eigi að bjóða hollinu á eftir að fara fram úr, sagði Sigurður Geirsson, alþjóðagolfdómari að í lagi væri að spyrja kurteisislega hvort fara megi fram úr. Það liggur í hlutarins eðli að ekki á að öskra á hollið á undan, þótt pirringur sé mikill vegna biðarinnar, heldur einfaldlega að standa kurteisislega á rétti sínum.

Tillitsleysi er og að láta þann/þá sem fer/fara fram úr fá það á tilfinninguna að honum/henni/þeim sé mikill greiði gerður, þetta sé ekki sjálfsagt, með tali eða svipbrigðum. Í þessu tilviki var ekki bara sjálfsagt að hleypa 1 kylfingi fram úr – annað var hreinlega brot á siðareglum.

Konan gerði rétt í því að biðja mennina afsökunar á að hafa slegið á þá og skv. Sigurði Geirssyni, alþjóðagolfdómara, bar þeim í ljósi aðstæðna að taka afsökunarbeiðnina gilda.

Það gerðu þeir greinilega ekki sbr. hróp og köll í þeim, eftir að konan var farin fram úr, en það er tillitslaust að vera með óþarfa hávaða, sem truflar alla sem eru við golfleik á nærligjandi brautum og þ.a.l. brot á helstu meginreglu siðareglnanna, að sýna beri tillitsemi.

Öryggi á golfvöllum gengur hins vegar alltaf framar leikhraða og hefði konan allt eins getað tekið upp boltann og farið þannig fram úr mönnunum, en sannir herramenn hefðu að sjálfsögðu beðið eftir konunni og boðið henni að fara fram úr, sem ekki tekur mikinn tíma þegar aðeins 1 kylfingur myndar holl.

Skv. siðareglum R&A fer það eftir leikhraða holls hvort hleypa eigi því fram úr – líkurnar eru með því að 1 kylfingur spili hraðar en 4 og er augljóst þegar þessi eini er ítrekað í bið á eftir hollinu á undan.

En aðstæður geta einnig verið þannig að það að hleypa fram úr er ekki réttlætanlegt t.a.m. í háönnum, þegar hver rástími á vellinum er fullskipaður og tafir eru – þá ber að miða við leikhraða sem eðlilegur er miðað við aðstæður.

Um það verður fjallað í annarri grein á morgun og nánar í tengslum við kylfinga, sem pirrast vegna hægs leikhraða og fara að „slá inn á“ aðra kylfinga í hollinu á undan.“

Grein greinarhöfundar hefir áður birtst á iGolf í september 2010.