Íslenska piltalandsliðið
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 6. 2013 | 09:00

Úlfar lætur af störfum sem landsliðsþjálfari

Úlfar Jónsson landsliðsþjálfari hefur tilkynnt stjórn GSÍ að hann óski eftir að láta af störfum sem landsliðsþjálfari.

Í yfirlýsingu sem Úlfar sendi frá sér kemur fram eftirfarandi; „Ég tel þetta réttan tímapunkt fyrir mig að stíga til hliðar úrlandsliðsþjálfarastöðunni. Ég kom að gerð afreksstefnu sambandsins og hef unnið í tvö ár að innleiðingu hennar og tel að landsliðsmálin séu í góðum farvegi og spennandi tímar framundan. Hinsvegar gegni ég einnig stöðu íþróttastjóra GKG og þó svo að gengið hafi að mestu leyti vel að sameina þetta tvennt, þá er umfang beggja starfa of mikið til að sinna með góðu móti. Það er heiður að fá að starfa sem landsliðsþjálfari og aðstoða okkar fremstu kylfinga, og ég er þakklátur fyrir það. Ég vil líka nota þetta tækifæri og þakka þjálfurum og samstarfsfólki mínu hjá GSÍ fyrir gott samstarf.“

Úlfar hefir samhliða landsliðsþjálfarastarfinu einnig verið lykilmaður í uppbyggingu og rekstri golfkennaraskólans á vegum PGA og mun golfhreyfingin áfram njóta krafta hans á þeim vettvangi. Úlfar og Ragnar Ólafsson liðstjóri landsliða verða Afreksnefnd GSÍ til ráðgjafar þar til nýr landsliðsþjálfari verður ráðinn.