Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari. Mynd Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 14. 2014 | 20:00

Úlfar: „Áhuginn er til staðar“

Í gær bárust þær gleðifréttir að Úlfar Jónsson myndi starfa áfram sem landsliðsþjálfari íslenska golflandsliðsins.

Golf 1 tók stutt viðtal við Úlfar í dag.

Golf 1: Af hverju hættirðu við að hætta sem landsliðsþjálfari?

Úlfar: „Áhuginn á landsliðsverkefnum er og var alltaf til staðar. Þetta var aldrei út af launum.  Þetta var bara orðið gífurlegt álag, en ég er í fullu starfi sem íþróttastjóri GKG, líka. Það náðust samningar við GSÍ og það verða fleiri sem koma að þessu með mér.“

Golf 1: Hverjir koma til með að starfa með þér?

Úlfar: „Þeir verða kynntir síðar, en það eru nokkrir aðilar. Það hafa alltaf verið nokkrir aðilar sem koma að landsliðsverkefnum en aðkoma þeirra hefir verið mismikil og verður svo áfram nema hvað þessum aðilum verður fjölgað.

Golf 1: Þetta hefir verið orðið gífulegt álag á þér í tveimur störfum…..

Úlfar: „Já, en þetta er líka spennandi og skemmtilegt.“

Golf 1: Til hve langs tíma verður þú landsliðsþjálfari?

Úlfar: „Það á eftir að útfæra það atriði nánar, en ég geri fastlega ráð fyrir að það verði fremur til langs tíma.“

Golf 1: Hver eru mikilvægust verkefnin framundan?

Úlfar: „Það eru Evrópumeistaramótin í sumar sem eru 6, þar af eru pilta-og karlalandsliðin komin í aðalkeppnina. Svo er útbreiðslustarfið alltaf mikilvægt.

Golf 1: Lýstu því í hverju útbreiðslustörfin felast?

Úlfar: „Þau felast í mjög stuttu máli í samvinnu GSÍ við klúbbana og sérstaklega afreksstarfinu í klúbbunum og aðstoð við að laða unga afreksmenn í golfið. Þetta er mjög mikilvægur þáttur í starfi landsliðsþjálfara, en ég býst við að fá aðstoð við þennan þátt sérstaklega.

Golf1: Heldur þó að við náum íslenskum kylfingi á Ólympíuleikana 2016?

Úlfar: Mér finnst það ólíklegt, það er raunhæfara að setja markið á 2020.

Golf 1: Hvað þarf til og af hverju erum við ekki að ná þessu?

Úlfar: Ég held að við munum ná þessu. En samkeppnin er bara alltaf að verða harðari.  Þegar maður lítur á meðalskor á PGA Tour þá er það að verða undir 70 höggum.  Allsstaðar í 2. og 3. deildinni og líka í bandaríska háskólagolfinu hefir meðaltalsskorið verið að lækka, bara á s.l. 5 árum.  Til þess að komast á Ólympíuleikana þurfum við fyrst að ná kylfingum á helstu mótaraðir í heiminum. Til þess þurfum við atvinnumenn í golfi og það þýðir ekki að ætla sér bara að gerast atvinnumaður eftir skóla. 12 ára krakkar verða að ætla sér að verða atvinnumenn og hafa þann aga og æfa eins og þeir.  Við eigum a.m.k. tvo mjög hæfileikaríka kylfinga í dag, sem þegar á unga aldri eru með forgjöf sem er undir því sem bestu atvinnumenn okkar í dag voru með á sama aldri og þeir.