Ragnheiður Jónsdóttir | október. 31. 2013 | 14:00

Uihlein gefur tilbaka

Peter Uihlein er nafn sem er að verða golfáhugmönnum tamara.

Flestir vita að Uihlein er bandarískur kylfingur.  Hann er sonur Wally Uihlein og þar með erfingi Acushnet, sem m.a. framleiðir m.a. Titleist og Footjoy.

Uihlein lék með Oklahoma State í bandaríska háskólgolfinu líkt og Eygló Myrra okkar Óskarsdóttir og Caroline Hedwall.

Hann tók þátt í úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina á Costa Ballena 2011, sama móti og Birgir Leifur Hafþórsson lék í.

Hann er milljarðaerfingi en velur sér samt ekki auðveldustu leiðina …. hann hefir unnið fyrir tilverurétti sínum á stærstu mótaröðunum.

Hann notaði ekki sambönd sín til þess að koma sér í boði styrktaraðila inn á PGA Tour, heldur ákvað að leika í Evrópu – vinna sig upp í gegnum Áskorendamótaröðina og er svo sannarlega búinn að vinna fyrir veru sinni á Evrópumótaröðinni.

Á síðustu 4 mótum hefir hann t.a.m. 3 sinnum verið meðal efstu 5 á mótum Evrópumótaraðarinnar.  Hann, sem áður var nr. 1 á heimsáhugamannalistanum, byrjaði árið í 385. sæti heimslistans, en er nú búinn að vinna upp sig í 60. sæti heimslistans.

En Uihlein gefur líka tilbaka.  Á Dunhill Links mótinu á St. Andrews nú fyrr á árinu var Uihlein paraður með helstu vonarstjörnu Skota, hinum 17 ára Bradley Neil. Uihlein sá til þess að hringirnir sem þeir félagar spiluðu yrðu hinum unga Neil ógleymanlegir. Uihlein var næstum búinn að skora 59 á Kingsbarns, síðan kom hann þeim í forystu eftir að spila hina sögufrægu 18. holu á St. Andrews á 2 höggum og hann og Neil unnu síðan liðakeppnina.  Ógleymanlegt fyrir hinn unga Neil.

En Uihlein lét ekki þar við sitja heldur gaf um 10.000 pund (u.þ.b. 2 milljónir) til skoska golfsambandsins, peningur sem eyrnamerktur var Neil þ.e. til þess að standa undir kostnaði, sem hann kemur til með að hafa af því að sækja keppnir.

Uihlein er því ekki bara að slá í gegn á eiginn forsendum heldur gefur líka tilbaka!