Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 22. 2013 | 07:00

Tyrkir vilja Ryder Cup 2022

Tyrkir vilja fá að halda Ryder Cup árið 2022.

Á næsta ári, 2014, fer Ryderbikarskeppnin fram í Gleneagles í Skotlandi, 2016 fer keppnin fram í Bandaríkjunum (Hazletine National GC, í  Minnesota) en álfurnar skiptast á um að halda mótið.

Árið 2018 fer mótið fram á Le Golf National golfvellinum í París og svo 2020 er mótið aftur í Bandaríkjunum (Whistling Straits, í Kohler, Wisconsin).

Næsta ár sem keppt verður og ekki er búið að ákveða mótsstað á í Evrópu er því árið 2022.

Tyrkir héldu nú nýlega veglegt mót, Turkish Airlines Open og var mótið hluti af Evrópumótaröðinni.  Buðu þeir m.a. Tiger Woods með ærnum tilkostnaði til þess að gera mótið sem eftirtektarverðast og létu hann m.a. slá golfboltum milli heimsálfa svo eftir var tekið; þ.e. yfir Bosporus- sund sem aðskilur Evrópu og Asíu.

En ekki nóg með að Tyrkir vilji fá að halda Ryder Cup.  Þeir bera sig líka eftir að fá að halda lokamót Evrópumótaraðarinnar og hafa lýst yfir vilja til að taka við af Dubai 2016 þegar samningur mótshaldara við Evrópumótaröðina rennur út.

Ákvörðun um mótsstað Ryder bikarsins í Evrópu 2022 verður ekki tekin og tilkynnt um hana fyrr en í Gleneagles á næsta ári og hvað lokamót Evrópumótaraðarinnar áhrærir og hvar mótsstaður þess verður eftir 2016 er ekkert látið uppi um það enn.