Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 28. 2012 | 13:25

Tvö ný mót á Evróputúrnum fara fram í Suður-Afríku: The Nelson Mandela Championship og Tshwane Open

Á næsta keppnistímabili, 2013, munu tvö ný mót Evrópumótaraðarinnar í samstarfi við Sólskinstúrinn fara fram í Suður-Afríku, eins og tilkynnt var fyrr í dag: þ.e. The Nelson Mandela Championship og The Tshwane Open.

The Nelson Mandela Championship mun verða haldið í samstarfi við barnasjóð, sem fyrrum forseti Suður-Afríku kom á laggirnar og mun fara fram 6.-9. desember.  Hitt mótið, Tshwane Open er haldið frá 28. febrúar til 3. mars 2013.

Verðlaunaféð á The Tshwane Open, sem fram fer í Els Club Copperleaf golfklúbbnum er 1.5 milljón evra  (u.þ.b. 250 milljónir íslenskra króna), auk þess sem sigurvegarinn fær 2 ára keppnisrétt á Evróputúrnum.

Enn á eftir að ákveða hvert verðlaunaféð á The Nelson Mandela Championship  verður,  en framkvæmdastjóri Sólskinstúrsins, Selwyn Nathan sagði að það myndi „a.m.k. vera ein milljón evra (þ.e. u.þ.b. 165 milljóna íslenskra króna).

„Ég er sérlega spenntur fyrir því að við erum með tvö önnur mót í samstarfi við evrópsku mótaröðina en það sýnir vel það traust sem önnur af stærstu mótaröðum heims sýnir okkur,“ sagði Nathan.

Enn á eftir að ákveða hvar Nelson Mandela Championship fer fram en Nathan sagði að það myndi verða haldið á öðrum eftirfarandi tveggja strandvalla: the Royal Durban Golf Club eða Humewood í Port Elizabeth á austari Höfðanum.

Borgarstjóri Tshwane, Kgosientso Ramokgopa, sagði að borgin myndi tryggja  44 milljóna rand ($5.24 milljóna þ.e. u.þ.b. 625 milljóna íslenskra króna) á ári þar til Sólskinstúrinn fyndi aðra styrktaraðila.

Talsmaður Sólskinstúrsins  tilkynnti líka að verðlaunafé Alfred Dunhill Championship, sem fram fer í Leopard Creek golfvellinum í Suður-Afríku, 13.-16. desember hafi verið aukið í  1.5 milljón evra (u.þ.b. 250 milljónir íslenskra króna).