Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 4. 2012 | 11:00

Trump langar til að fá að halda US Open á einum valla sinna

Donald Trump hefir þegar hlotið samþykki bandaríska golfsambandsins fyrir því að eitt stærsta risamót kvennagolfsins US Women´s Open fari fram á golfvelli hans Trump National í Bedminster árið 2017.

En mikill vill meira.

Hinn 65 ára fjárfestingamógúll og sjónvarpsstjarna sagði í gær (3. maí 2012) að hann myndi langa til að risamót allra risamóta (í karlagolfinu) færi fram á einum golfvalla sinna.

Trump á golfvelli um öll Bandaríkin og Evrópu sagði að Trump National sem Tom Fazio hannaði væri stór, mikill og erfiður völlur og sagði að hann stæðist léttilega samanburð við þá bestu í heimi.

„Ég vildi að þessi völlur yrði algerlega í hæsta klassa golfsins, hvað varðar gæði og lengd“ sagði  Trump á blaðamannafundi. „Það er hægt að spila hann 7.700 -7,800 yarda langan (7040 -7132 metra langan).  Þetta er einn af þeim stöðum sem ekki þarf að fást mikið við. Það er hægt að setja flatirnar upp ekki við 15 eða 16 heldur 12 og bestu kylfingar eiga þá í mestu vandræðum með að vera á parinu.“

Á Trump National fór fram Unglingameistaramót Bandaríkjanna  (ens. U.S. Junior Amateur and the Girls’ Junior championships) árið 2009.  Fulltrúar bandaríska golfsambandsins voru mjög hrifnir af því hvernig til tókst með mótshaldið þar sem þátt tóku 300 ungmenni.

Næst bauðst Trump til þess að halda US Women´s Open á vellinum og framkvæmdastjóri bandaríska golfsambandsins, Mike Davis, sagði að valið hefði reynst auðvelt fyrir 2017 mótið.

„Þegar komið er að kvennagolfi þá er þetta málið,“ sagði Davis um valið á vellinum fyrir mótið. „Ég myndi segja að vallarvalsnefnd okkar sé mjög nákvæm og Trump National í Bedminster á það algerlega skilið að halda mótið.“

Trump sagði að völlurinn væri ákjósanlegur fyrir risamót því aðgengið væri gott af hraðbraut sem lægi þar nálægt og hann væri með parkpláss fyrir um 18.000 bíla og mikinn fjölda áhorfenda.

„Ef það myndi gerast væri það mikill heiður,“ sagði Trump um möguleikann á því að fá að halda US Open (í karlagolfinu) á vellinum sínum.  „Ég ber ekki meiri virðingu fyrir neinu öðru móti en US Open. Ef ég væri kylfingur af þeim kalíber þá veit ég að það væri mitt fyrsta val.“

Davis (framkvæmdastjóri USGA/bandaríska golfsambandsins) hefir spilað golf með Trump og segir að hann spili vel. „Ég hef spilað nokkrum sinnum með honum,“ sagði Davis „og þegar þið heyrið sögusagnir um hversu lág forgjöf hans er, þá getið þið alveg treyst þeim, forgjöf hans er lögleg.“

„Ég hef gaman af golfi,“ sagði Trump. „Ég nýt viðskiptanna í kringum golfið.  Það er ekki aðalvettvangur viðskipta minna, sem er kannski alveg ágætt. Ég elska að fjárfesta í golfi. Ég hugsa að það sé gott fyrir okkur öll, sérstaklega mig og ég vona að þið njótið vallarins. Trump National er mér mjög kær.“

Eins og staðan er núna þá mun US Women´s Open, fara fram dagana 13.-16. júlí 2017 á Old Course Trump National.

Heimild: ESPN

Þetta er í fyrsta skipti sem US Women´s Open fer fram í New Jersey frá árinu 1987 þegar Laura Davies sigraði í Plainfield.