Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 14. 2012 | 09:15

Tom Watson vill Tiger Woods í Ryder Cup lið Bandaríkjamanna 2014

Eitthvert verst geymda leyndarmál golfsins síðustu 3 daga var að Tom Watson myndi verða fyrirliði liðs Bandaríkjamanna í Ryder Cup 2014, sem síðan kom á daginn.

Þegar Ryder Cup fer fram 2014 í Gleneagles, í Skotlandi verður hinn fimmfaldi risamótssigurvegari Watson 65 ára, elstur í golfsögu Bandaríkjanna til þess að gegna stöðu fyrirliða í Ryder Cup.  Hann hefir áður gegnt stöðu fyrirliða, síðast þegar Ryder Cup lið Bandaríkjanna vann útisigur, þ.e. á The Belfry  1993.

„Ég hef beðið eftir þessu í næstum 20 ár,“ viðurkenndi Watson í gær. „Ég vildi alltaf verða fyrirliði aftur og ég er mjög þakklátur fyrir þetta tækifæri.“

Þá þegar eftir að tilkynnt var um val fyrirliðans voru farnar að koma upp vangaveltur um samband Tom Watson og Tiger, en Watson hefir verið óspar á gagnrýni á Tiger á undanförnum árum hvort heldur er framferði Tiger á golfvellinum eða utan hans.

En Watson var fljótur að slá á alla kvitti og spekúlasjónir því eitt af því fyrsta sem hann sagði, eftir að hafa verið gerður að fyrirliða, var að hann vildi hafa Tiger í liði sínu.

„Ég vona“ sagði Watson „fyrst og fremst að Tiger verði í liði mínu. Hann er besti kylfingur í sögu leiksins. Hann kemur með styrk í liðið ólíkt öðrum leikmönnum,“ sagði Watson um Tiger. Hann sagði að ef Tiger kæmist ekki í liðið af eiginn rammleik, á stigum, myndi hann vera nr. 1 á lista yfir þá sem Watson velur sem fyrirliði.