Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 21. 2012 | 09:40

Tom Watson komst í gegnum niðurskurð á Opna breska

Tom Watson er golfgoðsögn og …. hann er 62 ára – gæti verið afi margra sem keppa með honum á Opna breska í ár.

Til marks um hversu aldursmunurinn er mikill voru 4 af efstu mönnum eftir 2. dag Opna breska (Brandt Snedeker, Adam Scott, Tiger og Thorbjörn Olesen) ekki fæddir þegar Tom vann Opna breska í fyrsta sinn.

Og í gær urðum við enn einu sinni vitni að töfrum Tom á golfvellinum…. einkum síðustu 2 holunum.

Hann missti innan við meters pútt á 17. á klaufalegan máta og fékk skolla sem kom skorinu upp í 4 yfir par.  Niðurskurður miðaðist við 3 yfir par og Tom var næsta viss, að eiginn sögn að hann myndi ekki ná því.  Hann varð að fá fugl á 18. og taldi sig hafa gert út um möguleika sína.

En sem kunnugt er, er golfhringurinn ekki búinn fyrr en sú feita syngur, en þetta leit illa út;  Tom átti nefnilega eftir 11METRA fuglapútt!!!

Eftir á sagðist hann hafa mislesið brotið, ekki hafa gert sér grein fyrir að boltinn myndi brotna svo mikið til vinstri, en hann „duck-hookaði“, svo notað sé golfslangur, til vinstri og boltinn steinlá í holunni!  Tom Watson kominn í gegnum niðurskurð við dúndrandi lófatak áhorfenda á 18. flöt Royal Lytham & St. Annes.  Ekki laust við að maður táraðist.  Þetta var frábært andartak enda Opna breska eitt alflottasta mótið ef ekki það flottasta, uppfullt af sögum eins og þessum á hverju ári.

„Ég sá ekki fyrir að það væri svona mikið brot í lokin“ viðurkenndi Watson um lokapúttið á 18. „Ég vissi að það myndi brotna til vinstri í lokin, en vissi ekki hversu mikið. Gott að ég mislas púttið.  „Og eins og ég sagði ég var heppinn að það datt,“ sagði hann andartaki síðar „púttið fór ekki þangað sem ég var að miða á, en það endaði í holunni.“

Tom Watson er 13 höggum á eftir Brandt Snedeker, en…. öfugt við marga aðra snillinga komst hann í gegnum niðurskurð. Meðal þeirra sem ekki náðu niðurskurði eru sá sem átti titil að verja Darren Clarke og fyrrum sigurvegarar Opna breska á Royal Lytham: Tom Lehman (1996) og David Duval (2001).

Og þó Tom Watson sé ekki líklegur til að sigra að þessu sinni getur hann þó huggað sig við hann hann hefir 5 sinnum staðið uppi sem sigurvegari í Opna breska (þ.e. 1975, 1977, 1980, 1982 og 1983)

Tom Watson – sannkallaður snillingur!!!