Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 19. 2011 | 16:00

Tom Lewis nýliði ársins á Evrópumótaröðinni

Englendingurinn Tom Lewis er nýliði ársins á Evrópumótaröðinni. Hann var valinn með hliðsjón af því að hann vann Portugal Masters í október s.l. en við það vann þessi 20 ára strákur sér tveggja ára keppnisrétt á Evróputúrnum.

„Ég kann mjög að meta þennan heiður. Þetta er svo sannarlega toppurinn á því sem hefir verið frábært ár,“ sagði Lewis í fréttatilkynningu í dag (mánudag).

Lewis lauk leik á glimrandi -7 undir pari, 65 höggum og vann Portugal Masters, átti 2 högg á Rafael Cabrera-Bello, frá Spáni, en hann komst á radarinn í júlí á Opna breska þar sem hann var fyrsti áhugamaðurinn til þess að leiða mótið frá árinu 1968.

Lewis var á 65 höggum á Sandwich og lauk leik fremstur allra áhugamanna og var síðan í liði Breta&Íra sem unnu Bandaríkin í Walker Cup, í september, áður en hann gerðist atvinnumaður og varð meðal 10 efstu á Opna austurríska.

Lewis minnist á föður sinn og þjálfara, Brian, sem er fyrrum atvinnumaður á túrnum, sem hefir haft áhrif á uppgöngu sonar síns úr áhugamennskunni í atvinnumennskuna.

„Ég myndi kannski ekki hafa orðið kylfingur, nema vegna pabba en hann hefir gert mig að þeim kylfingi sem ég er. Hann er raunverulega einstaklingurinn, sem gerði þetta allt mögulegt.“

Þegar Lewis vann alla sterku kylfingana í Portúgal, þá sló hann líka met fyrrum nr. 1 og 14-falds risamótssigurvegara, Tiger Woods, sem þurfti 5 mót til þess að landa fyrsta sigrinum sem atvinnumaður.