Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 12. 2012 | 22:00

Tinna byrjaði ekki vel á Dinard Ladies Open

Tinna Jóhannsdóttir, GK, spilaði fyrsta hringinn á Dinard Ladies Open, sem er hluti af LET Access mótaröðinni og hófst í dag.  Þátttakendur eru 88. Mótið fer fram í Saint Briac Sur Mer á Bretagne skaga í Frakklandi og stendur í 3 daga, 12.-14. apríl 2012.

Mótið er gríðarlega sterkt og þar spila stúlkur sem hafa áður spilað á Evrópumótaröð kvenna s.s. Jade Schaeffer, Melodie Bourdy (systir Grégory Bourdy, sem spilar á Evrópumótaröð karla) Anastasia Kostina og Mianne Bagger. Sú sem er í efsta sæti er heimakonan Marion Ricordeau, frá Frakklandi, en hún spilaði fyrsta hring á -3 undir pari, 66 höggum.

Marion Ricordeau er í efsta sæti eftir 1. dag Dinard mótsins.

Tinna spilaði fyrsta hringinn á +9  yfir pari, eða 78 höggum og er í 78. sæti eftir 1. dag.

Það sem er nokkuð spes er að völlurinn er að því er virðist par-69.  Þetta er linksari og hann er 2. elsti golfvöllur Frakklands. Klúbbhúsið er sérlega flott í Art Deco stíl.  Hönnuður vallarins er Skotinn Tom Dunn, sem Golf 1 hefir fjallað um, sjá hér:  THOMAS DUNN 1   &   THOMAS DUNN 2

Dinard klúbbhúsið í Art Deco stíl

Hér má komast á heimasíðu Saint Briac Sur Mer til þess að sjá hvað Tinna er að kljást við: SAINT BRIAC SUR MER

Tinna stefnir að því að spila á Evrópumótaröð kvenna og feta þar með í fótspor klúbbfélaga síns, Ólafar Maríu Jónsdóttur. LET Access er eins og nafnið bendir til stökkpallur eða aðgangur að Evrópumótaröðinni.

Golf 1 óskar Tinnu góðs gengis á morgun!

Til þess að sjá stöðuna eftir 1. dag á Dinard Ladies Open smellið HÉR: