Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 5. 2012 | 07:00

Tiger Woods náði ekki niðurskurði í Wells Fargo

Of mikið af slarki og næturlífi og minna af æfingum? Menn spekúlera hvað sé að hrjá fyrrum nr. 1 í heiminum þegar hann kemst ekki einu sinni í gegnum niðurskurð á móti eins og Wells Fargo. Er það ökklinn eða hnéð eða sveiflubreytingarnar allar? Skilnaðurinn, fjölmiðlafárið, slúðursleg uppljóstrunarbók Hank Haney um Tiger?

Ljóst er að skjólstæðingi, fyrrum sveifluþjálfara Tiger, Butch Harmon er að farnast mun betur í mótinu, sem hlýtur að svíða sárt. Butch er sveifluþjálfari Nick Watney og hefir ekki legið á gagnrýni sinni á Tiger.

Tiger spilaði á sléttu pari, samtals 144 höggum (71 73)  í Wells Fargo og var 1 höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn. Það er sjaldan sem einhver sem ekki kemst í gegnum niðurskurð hlýtur jafnmikla athygli og Tiger.  Hann er á heimleið eins og margir aðrir góðir kylfingar t.a.m. Vijay Singh (49 ára), Mike Weir (41 árs – verður 42 eftir viku), Angel Cabrera (42 ára), Retief Goosen (43 ára) allt herramenn í eldri kantinum, sem eru viku eftir viku að spila við sér allt að helmingi yngri kylfinga og unga, eldheita „wannabe-s“  Þó hljóta þeir ekki eins mikla umfjöllun fyrir að komast ekki í gegnum eitt mót, einfaldlega vegna þess að mælistikan sem við mælum þá með er allt önnur en Tiger – af honum er ætlast til að hann nái aftur himinhæðum fyrri frama.

En skiptir aldurinn yfir höfuð einhverju máli?  Sá sem leiðir Watney er 31 árs, aðeins 5 árum yngri en Tiger; Webb Simpson er 26 ára, 10 árum yngri en Tiger. Aldurinn skiptir auðvitað máli, krafturinn, snerpan, úthaldið er ekki það sama og áður – hins vegar vegur þáttur eins og reynsla alla hina oft á tíðum upp… að því tilskildu að í lagi sé með enn aðra þætti eins og andlegt jafnvægi, líkamlegt form og alla þætti spilsins.

Síðan er það lukka sú gamla kerling, sem arabar kalla hinu miklu meira sjarmerandi nafni Fatímu, sem enska orðið fate eða örlög er dregið af.  Lukkan féll ekki með Tiger í þetta sinn – þvílík örlög mikils manns!