Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 30. 2012 | 09:00

Tiger Woods hélt „netfund“ með aðdáendum fyrir Memorial mótið

Í Dublin, Ohio nánar tiltekið The Muirfield Village Golf Club fer nú í vikunni fram The Memorial mót Jack Nicklaus.

Venja er að kylfingar haldi blaðamannafundi fyrir mót, en Tiger hefir kosið að sleppa því í 2 skipti nú, en hefir þess í stað tekið upp á því að tala við aðdáendur í gegnum netið og svara spurningum þeirra þar í hálftíma eða svo.

Og þannig var það í gær.  Tiger kom sér fyrir í þægilegum rauðum sófa og blandaði geði við nokkra valda aðdáendur á netinu sem spurðu hann um allt milli himins og jarðar m.a. allt frá því hvers vegna hann væri núorðið alltaf í hvítum golfskóm, til hvers hann hefði litið upp til sem barn, af hverju hann skipti ekki út Sean Foley og færi aftur yfir til gamla sveifluþjálfa síns Butch Harmon, hvort hann hefði enn gaman að golfi til klassísku spurningarinnar um hvort hann teldi sjálfur að hann gæti slegið risamótamet Jack Nicklaus.

Varðandi risamótaspurninguna eilífu sagði Tiger að það væri enn aðalmarkmið sitt að slá met „Gullna Bjarnarins“ . „Ég tel að það muni taka mig allan ferilinn,“ sagði Tiger „Það tók Jack 24 ár og þetta er 17. árið mitt. Mér finnst ég enn hafa nægan tíma,“ en Tiger er búinn að sigra á 14 risamótum en Jack Nicklaus 18.

„Þetta snýst bara um að gefa sjálfum sér næg tækifæri til þess að spila seinni 9 á sunnudegi. Þeim mun fleiri tækifæri sem ég gef mér, því meir aukast líkurnar á að það muni smella í nokkrum þeirra.“

Annars kom bara fátt nýtt fram í netspjalli Tiger. Tiger sagðist þó enn hafa gaman af því að spila golf þrátt fyrir að hafa blótað og verið með kylfukast á the Masters og orðið í 40. sæti þar og síðan ekki náð niðurskurði í Wells Fargo og hafnað að nýju í 40. sæti á the Players tveimur vikum síðar.

„Ég elska að keppa og vera meðal strákanna á túrnum og reyna að slá þeim öllum við,“ sagði Tiger „Þetta er fíknin, þetta er skemmtunin. Augljóslega er mun meira gaman þegar maður sigrar heldur en þegar maður er í 40. sæti. Þetta er bara nokkuð sem ég er enn að vinna í.“

Heimild: Golf Week