Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 18. 2012 | 09:15

Tiger stefnir á risamótssigra 2013

Tiger Woods hefir náð sér á þessu ári; bæði er hann laus við óþægilega pressuna, sem á honum hvíldi vegna skandala í einkalífinu og eins er hann búinn að jafna sig á líkamlegum meiðslum, sem hann hefir þurft að glíma við.

Hann var í frjálsu falli á heimslistanum en er nú búinn að vinna sig upp í 3. sætið á heimslistanum, sem er frábær árangur!

Á þessu keppnistímabili náði hann líka að fara fram úr Jack Nicklaus a.m.k. í einu tilliti: Jack hefir alls unnið 73 PGA titla. Tiger bætti 3 sigrum á PGA við vinningalista sinn á þessu ári og hefir því alls sigrað 74 sinnum á PGA.  Þetta er 2. mesti fjöldi sigra á PGA Tour, aðeins Sam Snead á að baki fleiri sigra á PGA Tour eða samtals 82. Og Tiger þarf aðeins að sigra 9 sinnum í viðbót til að slá met Snead!

„Golflega séð er enginn samanburður á þessu ári og árinu þar áður (2011),“ sagði 14 faldur risamótssigurvegarinn, Tiger.

Næstu skref í endurkomu Tiger er að hann ætlar sér að einbeita sér að risamótunum á næsta ári, 2013.

Eitt af því sem sýnir vaxandi velgengni Tiger er hversu mjög verðlaunafé hans hefir aukist milli ára: Verðlaunafé sem Tiger hlaut 2011 var $ 660.238,- en verðlaunaféð tífaldaðist í ár í $6 milljónir 133.158 dollara.

„Ég hugsa í raun ekkert um vegatyllur eins og að vinna inn sem mest verðlaunafé. Ég hugsa bara um að sigra í mótum. Þegar ég lít til næsta árs ætla ég að reyna að sigra í þessum 4 risamótum,“  var m.a. haft eftir Tiger í The Herald.