Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 25. 2014 | 21:00

Tiger slítur samstarfi við Foley

Tiger hefir sagt Sean Foley upp störfum sem sveifluþjálfara sínum.

Tiger tilkynnti um lok samstarfs þeirra á vefsíðu sinni þar sem hann sagði líka m.a.:

„Ég vil þakka Sean fyrir hjálp hans sem þjálfara míns og fyrir vináttu hans í minn garð.“

„Sean er einn af mest framúrskarandi þjálfurum í golfinu í dag og ég veit að hann mun halda áfram að ná árangri með þeim leikmönnum sem vinna með honum. Þar sem næsta mót mitt er ekki fyrr en World Challenge í Isleworth, Orlando, þá er þetta rétti tíminn til að ljúka samstarfi okkar.“

„Sem stendur hef ég ekki þjálfara og það er ekki nein tímapressa að ráða nýjan.“

Foley, sem m.a. þjálfar Justin Rose og Hunter Mahan sagði samstarfsslitin við Tiger vera í góðu.

„Tíminn sem ég varði með Tiger er einn af hápunktum ferils míns til þessa og ég er þakklátur fyrir þá reynslu og tímann sem við vörðum saman,“ sagði Foley m.a.

Menn eru nú þegar farnir að spá í hvort Tiger muni aftur snúa sér til Butch Harmon og þegar er farið að veðja um það á félagsmiðlum hver verði næsti þjálfari Tiger.