Tiger og Matt Kuchar í forsetabikarnum 2013
Ragnheiður Jónsdóttir | október. 6. 2013 | 08:00

Tiger og Kuchar spila vel saman

Tiger og Matt Kuchar eru þeir einu sem búnir eru að vinna alla 3 leiki sína í Forsetabikarnum (ens. President´s Cup).

Þegar keppt er í liðakeppni sem Forsetabikarnum þá hlýtur að vera erfitt að finna spilafélaga fyrir Tiger.

Hann hafði einfaldlega á tímabili svo mikla yfirburði yfir aðra kylfinga, er enn svo mikil stjarna, hörkukeppnismaður og alls ekki allra.

Bara við það að keppa við Tiger í venjulegum mótum og vera með honum í ráshóp fær meðalstjörnukylfinginn til þess að missa einbeitinguna.

En samstarfið við nr. 8 á heimslistanum, heimsmeistarann í holukeppni 2013, Matt Kuchar, virðist bara hafa gengið með ágætum.

Tiger og Kuch

Tiger og Kuch

Í dag halda þeir félagar áfram þar sem frá var horfið í gær en Afríku-mennirnir Ernie Els og Brendon de Jonge eiga 2 holur á þá félaga í Muirfield Village.

Fyrir hádegið í gær unnu Tiger og Kuchar, Adam Scott og Hideki Matsuyama 1&0 og þar átti Tiger stóran hlut að sigrinum.  Þegar Tiger/Kuchar voru 2 undir svaraði Tiger með því að fá 3 fugla í röð og vann upp tveggja holu muninn og seinna fékk Kuchar fugl og á 14. holu fékk Tiger glæsiörn þannig að leikur snerist þeim í vil – þeir áttu allt í einu 2 holur á Scott/Matsuyama.

Það var einmitt Japaninn Matsuyama sem minnkaði forskot þeirra félaga aftur í 1 holu og Bandaríkin þurftu að innsigla vinninginn á 18. holu en það gerði svalur Kuchar þegar hann sökkti u.þ.b. 5 metra fuglapútti.

„Kuch, þvílíkur fugl á 18,“ hrópaði Tiger ánægður þegar hann faðmaði Matt Kuchar á 18. flöt.

Tiger og Kuchar

Tiger og Kuchar

En eins ánægður og Kuchar var með að hafa sett lokapunktinn í leiknum þá viðurkenndi hann þó að Tiger hefði lagt mun stærri skerf til sigursins.

„Allir heilagir, þessi gæi (Tiger) er nú meiri vinnuþjarkurinn,“ sagði Kuchar.  „Hann spilaði ótrúlegt golf í dag. Og ég fékk að fylgjast með flest öllu.  Ég brást honum stundum, missti nokkur pútt, en maður minn, það var svo sannarlega gaman að ljúka þessu svona.“

Það er alveg augljóst að þeir (Tiger og Kuchar) spila vel saman og virðast njóta félagsskapar hvors annars úti á velli, en Kuchar hefir tekið við hlutverki hins stöðuga, rólega félaga Tiger, sem Steve Stricker gegndi, en Strick er nú „barnapía“ fyrir Jordan Spieth, með góðum árangri eins og allt sem sá góði maður tekur sér fyrir hendur.

„Ég held að hann eigi frábæran félaga í Stricker,“ sagði Kuchar fyrr í vikunni. „Þeir tveir eru frábærir saman. Ég er ekki viss um að ég breyti því fyrirkomulagi nokkuð, ég held að þeir séu það góðir saman.“

En það er alveg augljóst að Kuchar og Tiger spila líka vel saman og eiga vel saman úti á velli, þeir hafa átt skemmtilegar stundir út á velli saman, en svo hefir líka komið þetta týpíska geðluðru-hnefaskak Tiger, sem hann ræður einfaldlega ekki við vegna gífurlegs keppnisskaps.

Tiger og Kuch

Tiger og Kuch

Og þá róar Kuchar eða með hans eiginn orðum: „Ég hugsa að ég fái hann til að slaka svolítið á þarna úti.“

Og lykillinn að því að fá Tiger til að líða vel virðist vera óvenjuleg kímni Kuchar sem Tiger hefir lýst sem skrítinni og skemmtilegri –

Þannig sagði Tiger:„Kuch og Duf eru ansi fyndnir náungar og maður býst við því óvænta með þeim báðum.“

En hverjir svo sem brandarar Kuch og Duf eru þá virðast þeir virka á Tiger.

A.m.k. líður Tiger vel að spila með þeim „Kuch og Duf“ og nær að sýna sínar bestu hliðar.

Eina skiptið sem Tiger hefir unnið alla fyrstu 3 leikina í Forsetabikarnum var fyrir 4 árum í Harding Park og þá var spilafélagi hans Steve Stricker…. en þá unnu þeir Tiger og Stricker reyndar alla 4 leikina þ.e. líka í tvímenningnum.

Það verður gaman að sjá hver af Alþjóðaliðinu spilar á móti Tiger í tvímenningi dagsins – fyrst þarf þó að klára 3. umferð, sem ekki kláraðist í gær vegna myrkurs.