Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 8. 2013 | 03:00

Tiger leiðir enn í Kaliforníu

Tiger Woods er enn í forystu eftir 3. dag á 30 keppenda mótinu, sem hann er sjálfur gestgjafi á, Northwestern Mutual World Challenge.

Tiger er samtals búinn að spila á 11 undir pari, 205 höggum (71 62 72) og heldur eins og segir efsta sætinu þó 10 högga sveifla sé milli hringja hjá honum en hann lék á sléttu pari í dag, en var á 10 undir pari í gær!

Hann reddaði hringnum með 2 fuglum á síðustu 3 holum sínum á ansi hvössum degi í Sherwood CC í Thousand Oaks, Kaliforníu.

„Ég er ánægður með að vera í forystu – en ekkert ánægður með hvernig ég púttaði í dag,“ sagði Tiger m.a. eftir 3. hring. „Ég skildi nokkur eftir þarna úti í dag.“ Hann var ekki sá eini.

Tiger á eftir sem áður 2 högg á Zach Johnson, sem er í 2. sæti á samtals 9 undir pari, 207 höggum (67 68 72).

Í 3. sæti er Bubba Watson á samtals 7 undir pari; í 4. sæti er Matt Kuchar á samtals 4 undir pari og í 5. sæti er síðan Webb Simpson á samtals 3 undir pari.

Til þess að sjá stöðuna fyrir lokahringinn á World Challenge þ.e. eftir 3. dag SMELLIÐ HÉR: 

Til þess að sjá hápunkta 3. dags á World Challenge SMELLIÐ HÉR: