Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 16. 2013 | 08:30

Tiger laug ekki

Þetta er sagan sem einfaldlega vill ekki deyja út – það er kominn fimmtudagur og HP Byron Nelson mótið í kvöld, er mót vikunnar á PGA Tour en enn eru allir að tala um The Players, Tiger, Sergio, eftirlitsmennina sem komu fram og sögðu Tiger vera að ljúga og nú eru tveir aðrir stignir á stokk, sem segja  allt ósanngjarnt í garð Tiger og hann hafi ekki verið að ljúga.

Svona til upprifjunnar:

Á par-5 2. brautinni á 3. hring The Players dró Tiger upp 5-tré, sem olli því að áhorfendur fögnuðu og spilafélagi hans Sergio Garcia, sem enn var ekki búinn að slá sagði að lætin hefðu truflað hann við höggið.

Tiger sagði í kjölfarið í blaðaviðtali að eftirlitsmennirnir hefðu sagt sér að Garcia væri búinn að slá.

Einn þeirra, yfirmaður eftirlitsmannanna á holum 1-3 á TPC Sawgrass, John North lét hafa eftir sér í Sports Illustrated:

„Ekkert var sagt við okkur og við sögðum svo sannarlega ekkert við hann. Ég varð fyrir vonbrigðum að heyra hann segja þetta. Við erum þarna til þess að aðstoða leikmennina og auka upplifun áhorfendanna. Hann sagði bara það sem kom sér vel fyrir hann. Það skorti karakter.“

Florida Times-Union fréttablaðið tók hins vegar viðtöl við tvo eftirlitsmenn SEM VORU Á 2. HOLU og annar þeirra Brian Nedrich hafði eftirfarandi um málið að segja:

„Þetta er ekki satt og algjörlega ósanngjarnt í garð Tiger. Þetta gerðist vegna þess að Tiger heyrði mig segja að Sergio hefði slegið.“

Nedrich sagði að hann hefði verið um 10 yarda (9 metra) frá Tiger og þó hann hefði varla séð Garcia hefði hann séð hann slá og bolta í loftinu. Hann sagði að þegar áhorfendur hefðu flykkst um Tiger hefði annar eftirlitsmaður, Lance Paczkowski reynt að fá þá til þess að hafa hljótt með því að segja: „Hinn leikmaðurinn hefir ekki slegið.“

„Það var þá sem ég kallaði til baka til Lance: „Nei…. hann er búinn að slá.“ „Tiger hafði þá tekið upp kylfuna sína en við sögðum honum (óbeint) að Sergio hefði slegið.“

Nú hlupu margir fjölmiðlar á sig í gær og sögðu Tiger hafa logið. Tiger laug ekki.

Umboðsmaður Tiger, Mark Steinberg sagði að framburður eftirlitsmannanna í Florida Times-Union blaðinu „sýndu greinilega að Tiger væri að segja satt um að sér hefði verið sagt að Sergio hefði slegið. Ég vona að þetta sýni sumum fréttamönnum mikilvægi nákvæmni og þess að vera ekki of fljótir að draga rangar ályktanir.“