Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 13. 2013 | 13:13

Tiger fær etv. frávísun úr Masters

Svo kann að fara að Tiger Woods verði vikið úr the Masters vegna þess að hann lét boltann falla ólöglega þegar bolti hans fór í stöng 15. braut Augusta National (Firethorn) og þaðan út í vatn.

Þetta var 3. högg Tiger á þessari par-5 braut, frá 87 yarda (þ.e. u.þ.b. 80 metra) færi fyrir erni.  Hann lét boltann síðan falla gegn höggi í víti, sló honum nálægt stöng og bjargaði skolla á holuna.

Skv. reglu 26-1 og staðarreglum hafði Tiger 3 valkosti úr vatnstorfærunni, sem er tjörn fyrir framan flötina:

1 Hann gat slegið frá fallreit, sem hann kaus að gera ekki vegna þess að honum líkaði ekki legan. (Staðarregla)

2 Hann hefði getað látið boltann falla aftan við vatnstorfæruna, þannig að sá staður þar sem upphaflegi boltinn fór síðast yfir takmörk hennar sé í beinni línu milli holunnar og þess staðar þar sem boltinn er látinn falla á. Engin takmörk eru á því hversu langt Tiger hefði mátt fara fyrir aftan torfæruna til að láta boltann falla. (Regla 26-1b)

3 Hann gæti hafa leikið boltanum eins nálægt og unnt er af þeim stað þar sem upphaflega boltanum var síðast leikið þ.e. „droppað“ boltanum eins nálægt þeim stað þaðan sem hann lék 3. höggið, en svo virðist vera sem Tiger hafi tekið þann valkost. (Regla 26-1a)

Í viðtölum eftir hringinn sagði Tiger að hann hefði „droppað“ boltanum 2 yördum (1.83 metrum) fyrir aftan þann stað ,sem upphaflega boltanum var síðast leikið. Sjónvarpsupptökur virðast sýna að hann hafi verið nær en það, en það sem veldur öllum túlkunarvandræðunum er hvort Tiger hafi „droppað“ boltanum eins nálægt og unnt er af þeim stað þar sem upphaflega boltanum var síðast leikið.

Á CBS stöðinni í bandaríska sjónvarpinu í gær kom sjónvarpsþáttastjórnandinn David Feherty fram og sagði að hann teldi að Tiger hefði látið boltann falla á ólögmætan máta.

Mótsnefndin, sem úrskurðar í málinu er að bíða eftir að Tiger komi á Augusta National í dag til þess að tjá honum niðurstöðu sína í málinu.

Hér má sjá myndskeið af því þegar bolti Tiger hafnar í stöng á par-5 15. brautinni (Firethorn) á 2. hring 77. Masters mótsins 2013  SMELLIÐ HÉR: