Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 10. 2013 | 12:00

Tiger hefur 2013 keppnistímabilið í Abu Dhabi 2. árið í röð

Tiger Woods hefur 2013 keppnistímabilið í næstu viku á Abu Dhabi HSBC Golf Championship, en þetta er 2. árið í röð sem Tiger leikur í upphafsmóti ársins í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Hann varð í 3. sæti á mótinu í fyrra 2 höggum á eftir Robert Rock frá Englandi, en þeir tveir voru jafnir eftir 3 hringi.

Tiger og „Rock" í Abu Dhabi í fyrra

Tiger og „Rock“ í Abu Dhabi í fyrra

Rory McIlroy hefir einnig boðað þátttöku sína og er mættur til Abu Dhabi og æfir stíft. Verðlaunafé í mótinu, sem hefst 17. janúar n.k. er  $2.7 milljónir.

„Ég er spenntur fyrir að keppa aftur,“ sagði Tiger í fréttatilkynningu á vefsíðu sinni. „Vonandi skila æfingarnar sér.“

Nr. 3 á heimslistanum mun síðan snúa heim til Bandaríkjanna og keppa á Farmers Insurance Open (FIO), sem hefst 24. janúar n.k.

Afrekaskrá hins 37 ára kylfings (Tiger) á Torrey Pines golfvellinum í San Diego þar sem FIO fer fram er frábær, en hann hefir unnið mótið 6 sinnum, meðan það hét enn Buick Invitational.

Hann missti af mótinu á síðasta ári þegar það og Abu Dhabi mótið sköruðust.

„Augljóslega,  hefir mér gengið vel í Torrey Pines,“ sagði Woods. „Ég næstum því ólst upp á Suður og Norður völlunum.  Áhangendur þar hafa alltaf verið mjög hvetjandi og ég hlakka til að snúa aftur.“