Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 13. 2013 | 14:45

Tiger fékk ekki frávísun

Tiger Woods hlaut ekki frávísun úr Masters vegna þess hvar hann lét bolta sinn falla þegar hann endurtók högg á 15. holu Augusta National (eftir að fyrri bolti hans hafnaði í vatnstorfæru) á 2.hring The Masters. En hann fær  2 högg í víti og er því á samtals 1 undir pari en ekki 3 undir pari og því 5 höggum á eftir forystumanni The Masters risamótsins í hálfleik, Jason Day.

Skv. fyrrum framkvæmdastjóra USGA David Fay var lítið svigrúm til túlkanna á reglunni.

„Á grundvelli þess hvernig reglurnar eru ritaðar sé ég ekki hvernig hann (Tiger) getur verið annað en áhorfandi í dag (laugardag),“ sagði Fay.

Þegar Fay fékk upplýsingar um að klúbburinn hefði úrskurðað Tiger í vil og að hann muni tía upp á 3. hring kl. 1:45 að staðartíma (kl. 5:45 á okkar tíma hér á Íslandi) breytti Fay afstöðu sinni. „Augljóslega hafði ég rangt fyrir mér,“ sagði hann. „Ég hlakka til að horfa á hann spila í dag.“

Spurningin snerist um hvort Tiger hefði látið boltann falla eins nálægt þeim stað þar sem upphaflega boltanum var síðast leikið (í samræmi við reglu 26-1a) eftir að bolti Tigers lenti í vatnstorfæru og hann endurtók höggið. Í viðtölum eftir hringinn sagði Tiger nefnilega að hann hefði verið 2 yördum (1,83 metra) fyrir aftan þann stað, þaðan sem hann upphaflega lék 3. högg sitt. Skv. því braut Tiger reglu 26-1 og ætti að hafa fengið 1 högg í víti. Þar sem hann bætti því víti ekki á skorkort sitt, skrifaði hann undir rangt skorkort og ætti að hafa hlotið frávísun á grundvelli reglu 6-6d, skv. túlkun sumra. Reglan hljóðar svo:

Keppandinn ber ábyrgð á að rétt skor sé skráð á skorkort hans fyrir hverja holu. Ef hann afhendir kort þar sem lægra skor er skráð á einhverri holu, en rétt er, sætir hann frávísun […]

„Sex fet (1.8 m) er ekki eins nálægt og mögulegt er, sérstaklega þar sem hann vissi nákvæmlega hvar hann lék upphaflega vegna höggfarsins og torfusneplanna í kring,“ sagði Fay.

Og jafnvel þó Tiger hafi ruglast á reglunum og hann hafi ekkert hagnast á þeirri legu þaðan sem hann sló sagði Fay að Augusta National ætti litla möguleika (þ.e. Day sagði þetta áður en mótsnefnd kvað upp úrskurð sinn um að Tiger mætti halda áfram leik og hlyti enga frávísun): „Maður verður að fara eftir reglunum, en ekki haga reglunum eins og maður vill.“

Mótsnefnd The Masters vitnaði í reglu 33-7 í úrskurði sínum, en reglan ber heitið „Frávísunarvíti. Vald nefndarinnar.  Þar segir: „Í einstaklingsbundnum undantekningartilvikum má víkja frá, breyta eða beita frávísunarvíti telji nefndin ástæðu til. Engu víti sem er minna en frávísun má víkja frá eða breyta.“

Mótsnefnd The Masters beitti þ.a.l. valdi sínu til þess að breyta frávísunarvíti í 2 högg í víti. Slíkt vald hefir aðeins nefndin en ekki einstakir dómarar.