Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 11. 2011 | 13:30

Þorvaldur Hjaltason tekur ekki við stöðu framkvæmdastjóra GHG í kjölfar strangs dóms

Þorvaldur Hjaltason, GÚ, var dæmdur í 12 mánaða keppnisbann af aganefnd GSÍ, fyrir að skila inn röngu skorkorti í Opna Carlsberg mótinu á Bakkakotsvelli, 28. ágúst s.l. Að mati margra er hér um gífurlega strangan dóm að ræða.

Þorvaldur var með tvö skorkort, annað sem var skorkort hans í mótinu og hitt sem hann hafði hreinskrifað og hugðist eiga. Á það skorkort skrifaði hann fugl á sig, á holu sem hann fékk skolla á, í mótinu. Síðan skilaði hann skorkortinu, sem aldrei var meiningin að skila. Aganefndin tók orð hans þar um ekki trúanleg og dæmdi hann í 12 mánaða keppnisbann, grundvallað á því að um ásetningsbrot Þorvalds hafi verið að ræða að skila inn röngu korti með hagstæðara skori.

Þorvaldur hafði nýlega gengið frá samningi um að hann tæki við stöðu framkvæmdarstjóra Golfklúbbs Hveragerðis (GHG), en hafði ekki hafið störf. í ljósi þessa þunga dóms og með bestu hagsmuni Golfklúbbs Hveragerðis að leiðarljósi ákvað hann að taka ekki við stöðunni.

Í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu GHG segir:

„Þorvaldur Hjaltason hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri GHG að eiginn ósk og gerir hann það með hagsmuni Golfklúbbs Hveragerðis að leiðarljósi.
Stjórn GHG þakkar Þorvaldi samstarfið og óskar honum góðs gengis í framtíðinni.“

F.h. stjórnar GHG
Erlingur Arthúrsson
Formaður GHG