Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 22. 2012 | 20:45

„The Match“ – 22. grein af 24

„Kylfingarnir þ.e. atvinnumennirnir Ben Hogan og Byron Nelson kepptu í fjórbolta við áhugamennina Ken Venturi og Harvie Ward vegna veðmáls milljónamæringanna Eddie Lowery og George Coleman, árið 1956, en Eddie taldi að enginn gæti sigrað tvo starfsmenn sína, áhugamennina Venturi og Ward í fjórleik. Coleman tók veðmálinu og mætti með þá Ben Hogan og Byron Nelson, sem er líkt og hann hefði mætt með Rory McIlroy og Luke Donald til að keppa við einhverja áhugamenn í dag. Þetta er í stuttu máli innihald bókarinnar „The Match“

Bókin er 250 síðna og dreifist á 20 kafla – í fjórum þessara kafla eru Ken, Harvie, Ben og Byron einmitt kynntir; e.t.v. ekki í svo löngu máli sem hér hefir verið gert á Golf 1 og aðeins drepið niður á feril þeirra, þar sem þeir eru staddir þarna 1956 og fram að því að þetta eitt þekktasta veðmál golfsögunnar á sér stað.  Áfram er haldið með kynninguna á þessum einhverjum frægustu kylfingum allra tíma í tveimur öðrum köflum bókarinnar þ.e. Ben and Byron og (Ben og Byron) og Hogan alone (Hogan einn).

Upphaflega var ætlunin að gera grein fyrir öllum 16 köflunum (þ.e. að köflunum um Ben, Byron, Ken og Harvie slepptum), en þar sem síðastgreindu 2 kaflarnir eru einnig ævisögulegir og hér á Golf1 hefir þegar verið gerð grein fyrir ævi og ferli Ben Hogan í 9 greinum og ævi og ferli Byron Nelson i 5 greinum þ.e. í mjög löngu máli þykir engin ástæða til endurtekningar og er vísað til þessara 14 greina.

Borið hefir á því að nokkrir lesendur Golf1 hafa talið sig missa þráðinn þegar þeir hafa misst af grein eða greinum um „The Match“ á aðventunni og er þeim bent á að mjög auðvelt er að slá inn „The Match“ á gráa leitarstreng, sem er á Golf1 vefsíðunni efst í hægra horninu og þá birtast allar 21 greinarnar, sem þegar hafa birtst um „The Match.“

Eftir stendur að gerð hefir verið grein fyrir formála og 10 köflum í bókinni „The Match“ og einungis 4 kaflar eftir, þegar framangreindum 2 köflum er sleppt auk kaflanna 4 um Ben, Byron, Ken og Harvie.  Það sem eftir eru eru kaflarnir: .  „The Finish“ (Leikslok);  The 1956 Clambake (Sjávarsíðuveislan 1956); Afterward (Eftir „The Match) og í viðbótum við bókina kaflinn Monterey and Cypruss Point (Monterey og Cyruss Point). Einnig hér verður farið hratt yfir sögu.

„The Match“ – fjórleikurinn sem leikinn var vegna veðmáls milljónamæringanna Eddie Lowery og George Coleman fór fram kl. 10:00, miðvikudaginn 10. janúar 1956.  En kylfingarnir sem spiluðu höfðu líkað veðjað sín á milli. Allir höfðu lagt 300 dollara undir, sem var brotabrot á við það sem undir var af hálfu milljónera vina þeirra, en menn greinir á um hvort það hafi verið 500.000  eða 2,5 milljónir íslenskra króna á verðlagi þess tíma.

Við skildum við Ben Hogan, Byron Nelson og áhugamennina Ken Venturi og Harvie Ward þar sem þeir voru að fara á teig 16. holunnar á Cypress Point einhverrar frægustu og bestu par-3 holu heims. Aðeins eftir að spila 3 holur og atvinnumennirnir í forystu 1 yfir. Í kaflanum „Leikslok“ er sagt hvernig leikar fóru og verður sleppt að greina frá því hér til þess að eyðileggja ekki skemmtan þeirra sem eftir eiga að lesa bókina.  Einungis látið við það sitja að talið er að um 5000 manns hafi verið saman komnir á 18. holu „The Match“ til þess að fylgjast með hetjunum koma inn. Kaflinn „Sjávarsíðuveislan 1956″ er einungis 2 síðna og  sagt frá Pro-Am mótinu á Pebble Beach sem Bing Crosby ásamt Ben Hogan unnu tveimur dögum eftir „The Match“, þó Ben hafi ekki gengið vel í móti atvinnumanna það ár; var með lokahring upp á 81 högg, en tannlæknir frá Tennessee, Cary Middlecoff tókst að verja titil sinn frá árinu áður.  Í kaflanum „Afterward“ (þ.e. eftir The Match) er greint frá hvað varð um Ben Hogan Byron Nelson og áhugamenninga 2 Ken Venturi og Harvie Ward eftir „The Match“ og er hvað það snertir líka vísað til kaflanna 18 um kylfinganna 4.  Bókinni lýkur síðan með mjög skemmtilegum lýsingum á Monterey skaganum í Kaliforníu, þar sem einhverjir fegurstu strandvellir heims eru s.s. Cyprus Point.

Á morgun verður 23. hluti „The Match“ þ.e. kynning á höfundi bókar Mark Frost og svo lýkur þessum greinaþætti á Aðfangadag með viðtali frá 2007 við Mark Frost, þar sem hann segir m.a. frá aðdraganda þess að hann skrifaði „The Match.“