Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 19. 2012 | 23:59

„The Match“ – 19. grein af 24

Nú hafa 4 aðalsöguhetjur í bók Mark Frost: “The Match – The day the game of golf changed forever, ”  verið kynntar til sögunnar; þ.e. Ken Venturi, Harvie Ward, Ben Hogan og nú síðast Byron Nelson.

Þessir 4 kylfingar kepptu í fjórleik vegna veðmáls milljónamæringanna Eddie Lowery og George Coleman, árið 1956, en Eddie taldi að enginn gæti sigrað tvo starfsmenn sína, áhugamennina Venturi og Ward í fjórleik. Coleman tók veðmálinu og mætti með þá Ben Hogan og Byron Nelson, sem er líkt og hann hefði mætt með Rory McIlroy og Luke Donald til að keppa við einhverja áhugamenn í dag.  Þetta er í stuttu máli innihald bókarinnar „The Match“

Bókin er 250 síðna og dreifist á 20 kafla – í fjórum þessara kafla eru Ken, Harvie, Ben og Byron einmitt kynntir; e.t.v. ekki í svo löngu máli sem hér hefir verið gert á Golf 1 og aðeins drepið niður á feril þeirra, þar sem þeir eru staddir þarna 1956 og fram að því að þetta eitt þekktasta veðmál golfsögunnar á sér stað. Eins eru kaflarnir um þá fléttaðir inn í söguna og eru kynningarnar ekki settar fram eins þurrt og hér, enda um sögulega skáldsögu að ræða og ekki þörf að greina frá ferlum þeirra í eins smámunasaman hátt og hér.

Meiningin nú er að kynna hvern kafla af „The Match“, formálanum og köflunum 16 (þ.e. að köflunum um Ken, Byron, Harvie og Ben slepptum) og byrjað á formálunum fyrstu 4 köflunum í dag: The Clambake (Veislan);  Coleman´s Cocktail Party (Kokkteilveisla Coleman), Eddie og The Bet (Veðmálið). Fimmti kafli bókarinnar er síðan um Ken Venturi og verður honum sleppt því Venturi hefir jú nú þegar verið kynntur.

Bókin „The Match“ eftir Mark Frost

Formálinn

Reyndar hefst formáli „The Match“  enn á kynningu á kylfingunum 4: Bókin hefst 1945 í Monterey, Kaliforníu þar sem hinn 15 ára einfari Ken Venturi situr við par-3 16. brautina á Cyrpress Point, en á þeim velli fór „The Match“ fram 10. janúar 1956.  Heimurinn er Ken andsnúinn, hann er lagður í einelti vegna þess að hann stamar og hann leitar huggunar í golfinu, sem hann æfir frá morgni til kvölds.

Farið er 18 ár aftur í tímann, til ársins 1927 til kaddýdaga Byron Nelson og Ben Hogan í Texas og dregin upp mynd af þessum gjörólíku persónuleikum, Byron sólskinsdrengur af kristilegu heimili, opinn og fallegur,  umvafinn hlýju og kærleik allra en Ben Hogan andstæðan, að ná sér eftir sjálfsvíg föður síns, sem ævisöguritari hans sagði að hann hefði orðið vitni að; eins þótti hann ekkert laglegur var lokaður og varð að vinna hörðum höndum fyrir sér. Ben og Byron kepptu s.s. áður er sagt frá í móti kylfusveina í Glen Garden Country Club og þar hafði Byron betur eftir 9 holu umspil, sem vannst á síðustu holu. Sagt er að ósigurinn hafi hert stálvilja Ben að sigra.

En er skipt um stað og tíma í formálanum og farið á Pinehurst 2 golfvöllinn í Norður-Karólínu 1948 og sagt frá Harvie Ward viðskiptafræðinemanum þegar hann sigrar milljónerasoninn Frank Stranahan, í holukeppni 1&0, en Frank var svo sigurviss að hann var búinn að bóka sal á hóteli í bænum fyrir sigurveisluna …. en varð að afbóka seinna um kvöldið. Frank var á allan hátt líklegri sigurvegari; var á undan sinni samtíð með það að hann stundaði líkamsrækt hörðum höndum og voru dræv hans þ.a.l. miklu lengri en dræv Harvie Ward. Þegar þeir gengu af flöt sagði Frank ískalt: „Ef þú gætir ekki púttað svona myndirðu ekki spila golf.“ Harvie á að hafa svarað: „Síðast þegar ég vissi voru púttin hluti golfs.“ Harvie vann síðan NCAA Collegiate Championship 1949, komst á National Amateur mótið og framganga hans þar tryggði honum sinn fyrsta keppnisrétt á the Masters.

Segir síðan í formála að leiðir þessara 4 ólíku kylfinga hafi allar átt eftir að liggja saman í jafn ólíkindalegum leik og „The Match“ var.  „The Match“ var keppni milli áhugmannanna Ken Venturi og Harvie Ward og atvinnumannanna Ben Hogan og Byron Nelson, sem fyrr segir.

Í Bandaríkjunum var golfleikurinn (og er enn í dag að nokkru) leikur hinna ríku – leikur vellauðugra áhugamanna, sem stofnuðu USGA þ.e. golfsamband Bandaríkjanna og stofnuðu fyrstu einkaklúbbana. Ríkir áhugmenn voru meðal bestu kylfinga á árunum 1913 – 1933, sem sést m.a. á því að Opna bandaríska vannst á því tímaskeiði 8 sinnum af áhugamönnum. Atvinnumenn í golfi voru hin vinnandi stétt – menn sem urðu að draga fram lífið á lúsarlaunum golfkennslu og lágu verðlaunafé golfmóta. Til þess að hafa í sig og á tóku góðir atvinnumenn oft veðmálum ríkra áhugamanna.  Kringum 1950 breyttist leikurinn að eilífu eins og segir í titli „The Match“ atvinnumenn fóru að fá hærra verðlaunafé – sýnt var frá leikjum í sjónvarpi og fram á sjónarsviðið steig Arnold Palmer, sem er einn af þeim Bandaríkjamönnum, sem gert hefir hvað mest fyrir hinn almenna kylfing.

Bob Hope og Bing Crosby

The Clambake

Fyrsti kaflinn í „The Match“ er „The Clambake.“, en clambake er enska orðið yfir útisamkomur með máltíð. Upprunalega var þetta útimáltíð á sjávarströnd þar sem framreiddur var bakaður eða gufusoðinn skelfiskur og gekk oft mikið á, á slíkum samkomum.

Eina glæsilegustu sjávarfangssamkomuna hélt leikarinn og söngvarinn Bing Crosby sem eins og segir í bókinni „embodied the whole idea of cool before cool was cool.“  Hún var í tengslum við hugmynd sem hann framkvæmdi um að halda mót fyrir hina ströglandi atvinnukylfinga, para þá við leikaravini sína í 36 daga betri bolta  keppni og halda eina allsherjar veislu, sem þó var ávallt til styrktar einhverju góðgerðarmálefni.

Crosby sjálfur hafði leikið golf frá því hann var barn í Spokane, Washington. Hann var með 1 stafs forgjöf alla sína ævi og varð 5 sinnum í klúbbmeistari í golfklúbbi stjarnanna Lakeside Golf Club og spilaði bæði á British og US Amateur.

Frægt er fyrsta Pebble Beach mótið sakir þess að sigurvegarinn Sam Snead neitaði að taka við ávísun upp á 732 dollara úr hendi Crosby heldur vildi fá greitt í peningum – hann sagðist vantreysta bankastofnunum, sem líklega hefir verið afleiðing kreppunnar miklu, en sýndi líka hversu erfitt uppdráttar atvinnukylfingar áttu á þessum árum. Snead er sá kylfingur sögunnar sem unnið hefir flest PGA Tour mót eða 82 talsins.

Sam Snead

Ben Hogan og Byron Nelson mættu í mót Crosby þegar árið 1938. Snead varði titil sinn það árið. Byron Nelson, sem paraður var með Johnny „Tarzan“ Weissmueller tapaði að vísu… en þó ekki því hann stofnaði til mikillar vináttu við Crosby og varð fastagestur á „The Clambake“ næstum alla ævi. Hann hitti líka marga ríka í veislum Crosby m.a. Eddie Lowery.  Ben Hogan óheppinn eins og venjulega varð í 8. sæti á Pebble Beach 1938 og fékk 75 dollara sem var varla nóg fyrir útgjöldum. 1939 varð Hogan í 6. sæti og tók heim $115 og 1940 varð hann í 4. sæti og hlaut $ 225. Árið 1942 dró 2. heimstyrjöldin úr gleðinni og var veislan á Pebble Beach ekki haldin sem og risamótin í golfi, en þegar stríðinu lauk endurvakti Crosby veislu sína og stakk jafnframt upp á því við PGA að mótið yrði haldið á 3 golfvöllum á Pebble Beach, sem þau eru enn haldin á í dag og hafa verið hluti af PGA Tour frá árinu 1948.

Í Hvíta húsinu 1956 var maðurinn sem hafði unnið stríðið fyrir Bandaríkjamenn Dwight Eisenhower, sem ekki dró dul á ástríðu sína, golfið sem mótaði tíðarandann, fólk fór að spila golf í auknum mæli auk þess sem sjónvarpsstöðvar fór að sýna frá  Augusta og  árlegri veislu Crosby, þar sem vínið flaut og hægt var að skemmta sér á allan hátt  því veisla Crosby baut upp á allt, grín, sorg, drama, vín, kynlíf… en þeim þáttum veislunnar var þó   ekki sjónvarpað já það var hægt að fá allt nema  góðan nætur svefn.

Veislan sem Crosby hóf stendur enn og er haldin árlega á Pebble Beach – nú er  leikurunum, sem eitt sinn studdu strögglandi atvinnukylfinganna mikill heiður að fá að spila við þá, en enn er haldið í hefðina: stjörnur golfsins þakka árlega þessum mestu velgjörðarmönnum sínum frá því í upphafi síðustu aldar, með því að spila á Pebble Beach í upphafi hvers árs.

Bing stjórnaði öllu og raðaði leikaravinum sínum, listamönnum og buisnessfólki saman við atvinnukylfinga af jafn mikilli nákvæmni og sætisskipan í hvíta húsinu.

Árið 1956 var áhugamaðurinn Byron Nelson, sem átti titil að verja á Pebble og var þá orðinn 44 ára og hættur að spila á PGA Tour og orðinn kúabóndi í Texas, paraður með vini sínum, sem hann kynntist í veislunni 1938, bílasölumanninum Eddie Lowery, eins af upphafsmönnum golfs í Bandaríkjunum og stjórnarmanni í USGA þ.e. bandaríska golfsambandsins. Þeir ætluðu sér að verja titilinn.

George Coleman

Kokkteilveisla Coleman

Veislan árið 1956 hófst 10. janúar og flugu allir helstu kylfingar PGA Tour og fyrirmenn í Bandaríkjunum til Pebble Beach og leigðu sér hallir við ströndina, með nóg af matarbirgðum til þess að gera árás á Normandí.  Eitt af vinsælustu partýunum þetta árið var kokkteilveisla haldin af milljónamæringnum George Coleman, en faðir hans átti námur í Oklahoma sem Coleman erfði 21 árs gamall. Coleman færði fjölskylduveldið út; var kominn í bankageirann; átti kúabú og var í olíubransanum, rak m.a. „litla fyrirtækið“ Pennzoil og átti Detroit Tigers hafnarboltaliðið.  Coleman hafði spilað golf frá unga aldri, pabbi hans byggði m.a 9 holu golfvöll fyrir hann. Æskuvinur Coleman lýsti honum sem „manninum sem ætti 5% í öllu.“ Eftir því sem ríkidæmi Coleman jókst héldu hann og eiginkona hans, Elisabeth Fullerton stórar veislur á heimilum sínum í Colerado, Palm Beach, New York og á Norður-Ítalíu fyrir þá, sem fólk var farið að kalla „jet-settið“ þ.e. liðið sem flaug staða á milli og George flaug jafnan sjálfur.  George var vinur Bing Crosby og kynntist Ben Hogan 1942 í einni af veislum Bing og urðu þeir miklir mátar.  Reyndar áttu Hogan og Coleman afmæli með 2 vikna millibili og gætu sem persónur hafa verið tvíburar aðskildir við fæðingu… en uppvöxtur þeirra gjörólíkur, Hogan varð að berjast fyrir öllu, Coleman fékk allt á silfurfati en báðir sáu fyrirmyndir í hvor öðrum. Þetta ár 1956 ætluðu þeir að spila saman á Pebble og Hogan fjölskyldan fékk að gista í höll Coleman. Hogan og eiginkona hans litu við hjá Coleman í kokkteilveislu hans en voru farin kl. 19:30 til þess að heimsækja Bing Crosbie. Einmitt um það leyti komu Eddie Lowery  og gestur hans þá vikuna, Byron Nelson, ásamt eiginkonum sínum.

Fræg mynd af Eddie Lowery, t.v. (10 ára) kylfusveini Francis Quimet, þess sem vann Opna bandaríska 1913

Eddie

Eddie Lowery var líkt og Coleman múltimilljóneri, en ólíkt Coleman og líkt og Hogan hafði hann þurft að vinna sig upp úr sárustu fátækt. Hann var 10 ára kylfusveinn Francis Quimet, fyrsta Bandaríkjamannsins til þess að sigra á Opna bandaríska 1913 og talinn meðal upphafsmanna golfs í Bandaríkjunum. Aðeins 1 ári áður hafði hann misst föður sinn. Þegar Quimet sigraði vildi hann ekki taka við peningum sem faganandi áhorfendur réttu honum en kylfusveinninn hans litli Eddie Lowery endaði með heil auðævi í húfunni sinni heila $ 125 dollara. Eddie vann sig upp var kominn í auglýsingabransann í Boston í kringum 1920, en þá dó fyrsta eiginkona hans eftir að fyrsti sonur þeirra fæddist og Eddie þurfti að skipta um umhverfi og flutti til Kaliforníu. Þar auðgaðist hann á sölu bíla.  Hann hélt líka tengslum við golfið; á árunum í kringum 1920 hafði hann tekið þátt í Massachusetts Junior og Amateur og þegar hann fluttist til Kaliforníu gekk hann í San Francisco Golf Club og Cypress Point klúbbinn. Þegar önnur kona hans, Louise dó 1951 úr krabbameini, sökkti Eddie sér í golfið. Hann var mikill vinur manna á borð við Ed Sullivan og Bing Crosby og eins Ben Hogan og sérstaklega Byron Nelson. Hann var spennufíkill, sem mótaðist mjög af fátækri æsku sinni. Þetta kvöld í kokkteilveislu Coleman gat Eddie ekki hægt að tala um tvo starfsmenn í bílasölu sinni, en hann hafði næmt auga fyrir hæfileikafólki í golfi.  Sökum kunningsskapar við Crosby var hann búinn að skrá starfsmenn sína Ken Venturi og Harvie Ward í Pro-Am mótið á Pebble.

Veðmálið

Eftir 3. kokkteilinn var Eddie Lowery enn að tala um þá Venturi og Ward og var að spá öðrum hvorum þeirra sigri í Pro-Am móti Bing Crosby. Þetta náði athygli Coleman en þeir Lowery áttu í mjög flóknum sambandi, voru báðir félagar í Cypress Point, Augusta og Seminole en kjarni sambandsins var samkeppni.Þeir voru alltaf að keppast um á golfvellinum og þótti gaman að leggja undir pening. Þegar þarna var komið sögu höfðu Coleman og Ben Hogan nýtapað í veðmáli fyrir Lowery og Byron Nelson í Brookhollow golfklúbbnum í Dallas, Texas. Mont Lowery þetta kvöld fór í taugarnar á George Coleman.

En Lowery hélt áfram: „Kenny og Harvie eru bestu áhugamenn heims um þessar mundir. Annar þeirra, annarhvor þeirra – e.t.v. báðir – eiga eftir að sigra á Masters eða Opna bandaríska. Mér líka líkur þeirra, þeir eru á toppnum núna, aðeins himininn er takmarkið.“

„Ég sver við Krist að það er ekki nokkur í heiminum sem getur unnið þessa stráka ef þeir spila saman.“

Coleman gat ekki stillt sig: „Ertu að segja að þessir áhugamenn – þessir bílasalar þínir geti sigrað hvern sem er í heiminum í golfi í dag?“ „Líka atvinnumenn?“

„Já hvern sem er,“ var svar Lowery.  Lowery lagði nú undir óheyrilega fjárhæð, heimildarmönnum ber ekki saman um hana $5000 eða $ 20.000 á gengi þess tíma  e.t.v. til þess að fá Coleman til þess að hætta við …. en það gagnstæða skeði Coleman tók veðmáli Lowery. Hann blikkaði ekki einu sinni.

Eftir þetta stóð George Coleman upp og fór. Eddie spurði hvert hann væri að fara og Coleman svaraði að hann yrði að eiga nokkur símtöl. Coleman hringdi í Ben Hogan sem sagðist mundu spila gegn þeim Venturi og Ward með Byron Nelson; hann vildi bara enga áhorfendur og Coleman sagðist geta komið því í kring.  Coleman sneri aftur til stofunnar og bað síðan Byron Nelson að spila með Hogan gegn áhugamönnunum, sem Lord Byron samþykkti.

Síðan sneri Coleman aftur til Eddie Lowery og tilkynnti honum að þeir sem hann hyggðist mæta með gegn þeim Venturi og Ward væru Ben Hogan og Byron Nelson.

„Það er frábært,“ sagði Eddie Lowery, „hverja mætirðu með?“  „Nelson og Hogan“ var svar Coleman. Það varð dauðaþögn við borðið, en einmitt var verið að bera fram steikina.

„Nú þeir sigra þá líka,“ sagði Eddie. „Við sjáum nú til með það“ var svar Coleman. „Ben (Hogan) er þegar með rástíma á Pebble Beach kl. 11.“

„Það er fínt. Strákarnir mínir mæta.“ sagði Eddie.

Það var eitt sem Coleman bað um að enginn segði neitt frá þessu þar sem ekki væri óskað eftir áhorfendum.  Þegar Eddie og Byron voru við það að fara bað Coleman þá um að mæta kl. 10:00, þar sem að þegar kjaftaðist út að þeir væru þarna kl. 11 myndu þeir þegar vera komnir áleiðis í veðmálskeppninni.  Mennirnir þrír hlógu.

„Ég elska að taka við peningunum þínum,“ sagði Eddie við Coleman. „Mættu bara með strákana þína,“ var svar Coleman.

Eftir að Eddie Lowery og gestur hans Byron Nelson sneru til heimilis Lowery fór Byron Nelson þegar til herbergja sinna ásamt konu sinni og Eddie hringdi í Ken Venturi.  Hann spurði: „Ætluðuð þið Harvie ekki að spila æfingahring á morgun?“ „Jú“ svaraði Venturi.

„Ef þið gætuð spilað í besta bolta keppni á morgun gegn hverjum í heiminum sem væri, hverjir myndu það vera?“ spurði Eddie Lowery.

Þetta var nokkuð sem þeir Kenny höfðu oft talað um. Ken Venturi svaraði: „Byron og Ben. Af hverju?“

Þegar Eddie Lowery sagði Ken frá því að búið væri að ganga frá leiknum varð hann svo spenntur að hann stikaði um herbergið. Gegn bestu kylfingum heims – þetta var draumur sem var að rætast!

Eddie hringdi þegar heim til Bing Crosby til þess fá að tala við Harvie en það náðist ekki í hann. Enginn hafði séð Harvie allt kvöldið.