Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 9. 2012 | 01:30

The Masters 2012: Bubba Watson er sigurvegari á The Masters 2012

„Þetta mót svíkur aldrei“ sagði Árni Páll lýsandi The Masters á Stöð 2 Sport og má það til sanns vegar færa. Þvílíkt mót – þvílík flugeldasýning!

Það byrjaði strax á 2. braut hjá Louis Oosthuizen þegar hann fékk albatross, þann fyrsta frá árinu 1994 og leit lengi vel út að hann myndi fara með sigur af hólmi. Eftir 72 holur var hins vegar allt  í járnum. Báðir Louis Oosthuizen og Bandaríkjamaðurinn Bubba Watson voru á sama skori; báðir á -10 undir pari samtals, þ.e. samtals 278 höggum, Bubba (69 71 70 68) og Louis (68 72 69 69).

Því varð að koma til umspils milli Oosthuizen og Watson og það var síðan sleggjan og hinn nýbakaði faðir… Bubba Watson, sem stóð uppi sem sigurvegari á 2. holu umspils.  Fyrri hola umspils var sú 18. og þar var allt jafnt en á seinni holu umspils, þeirri 10. (sem er par-4) fékk Oosthuizen skolla en Bubba Watson par og þar með lá ljóst fyrir hver sigurvegari The Masters 2012 var: Bubba Watson.

Þetta er fyrsti sigur Bubba Watson á risamóti.

Þriðja sætinu deildu Phil Mickelson, Matt Kuchar, Lee Westwood og Peter Hanson, en þeir voru á samtals -8 undir pari, hver.

Að leik loknum klæddi Charl Schwartzel Bubba í Græna Jakkann eftirsótta og verðlaun voru afhent þeim áhugamanni sem var með lægsta skorið en það var Bandaríkjamaðurinn Patrick Cantley.

Til þess að sjá úrslitin á The Masters 2012 smellið HÉR: