Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 12. 2013 | 22:00

Hver er Nandina á Masters?

The Masters risamótið sem er það 77. nú í ár fer að venju fram í Augusta National Golf Club. Spurningin í fyrirsögn greinarinnar var hvort vitað væri hver Nandina væri? Ef þið lesið eftirfarandi þá komist þið að því hver Nandina er, ef þið hafið þá ekki þegar vitað það, en hér fer kynning/upprifjun á hverri holu á Augusta National vellinum:

Klúbbhús Augusta National.

1. braut (Tea Olive), 445 yardar, (407 metrar), par-4: Djúp sandglompa er til hægri, en lögun flatarinnar gerir þetta að erfiðri upphafsholu og sérstaklega var hún erfið 2005 þegar teigurinn var færður aftur 20 yarda (18  metra). Það eru grenitré til vinstri handar og brautin fer í örlítinn „dogleg“ til hægri.

2. braut (Pink Dogwood), 575 yardar,(526 metrar) par-5: Trén til vinstri eru dauðagildra – þau kostuðu Pádraig Harringt0n skor upp á 9, árið 2009. Það ætti að vera hægt að vera inni í 2 höggum, en sandglompurnar beggja vegna flatarinnar eru fjölsóttar.

3. braut (Flowering Peach), 350 yardar, (320 metrar), par-4: Stysta par-4 brautin á vellinum og stríðin. Perulöguð flötin með bröttum halla fyrir framan býður upp á nokkrar andstyggilegar pinnastaðsetningar. Masters sigurvegarinn, Charl Schwartzel náði erni 2011.

4. braut (Flowering Crab Apple), 240 yardar, (201 metri), par-3: Af öftustu teigum – sem eru ekki alltaf notaðir er þessi braut hreinasta kvikindi, þar sem flötin hallar öll að aftan og fram. Jeff Sluman náði ás á brautinni 1992 og er hann sá eini til þess að hafa náð ás á brautinni í allri sögu Masters.

5. braut (Magnolia) 455 yardar (416 metrar), par-4: Þetta er „dogleg“ upp í móti til vinstri með hallandi flöt. Teighögg til vinstri býður upp á styttra 2 högg, en þá er 2 brautarglompum og erfiðu röffi að mæta.

6. braut (Juniper), 180 yardar, (165 metrar), par-3: Slegið er af upphækkuðum teig á gríðarstóra flöt með miklum halla. Chris DiMarco sló 4. ásinn ofan í hér árið 2004.

Juniper“ – 6. brautin á Augusta National

7. braut (Pampas), 450 yardar (412 metrar), par-4: Þetta var braut, sem virkilega bauð upp á fuglafæri hér áður fyrr, en var þyngd til muna þegar 35-40 yördum (32-37 metrum) var bætt við lengdina fyrir 5 árum síðan. Fjöldi trjáa var líka aukinn og 5 sandglompum bætt við í kringum endurhannaða flötina.

8. braut (Yellow Jasmine), 570 yards (521 metrar), par-5: Sandglompan til hægri, u.þ.b. 300 yarda (274 metra) frá teig, hvetur kylfinga til að slá til vinstri og þaðan er erfiðara inn á flötina í 2 höggum upp bratta hæðina. Tré hægra megin við flötina er einnig til vandræða.

9. braut (Carolina Cherry), 460 yards (421 metri), par-4: Teigurinn var færður aftur um 30 yarda (27 metra) árið 2002. Fjöllaga greenið hallar að aftan og allt sem rúllar af flöt fyrir framan getur haldið áfram að rúlla niður 50-60 yarda (46-55 metra).

10. braut (Camellia), 495 yardar (453 metrar), par-4: Hér er hæðarmunur mikill frá teig að flöt og hér er nauðsyn á miklu upphafshöggi frá hægri til vinstri til þess að fá hámarks rúll. Allt í allt er þetta erfiðasta brautin í gegnum tíðina á Masters. McIlroy fékk t.a.m. 7 hér á lokahringnum 2011.

11. braut  (White Dogwood), 505 yardar (462 metrar), par-4: Þetta er fyrsta brautin á hinni frægu „Amen Corner“ þrennd, þessi braut hefir vakið skelfingu allt frá því teigurinn var færður aftar 10-15 yarda (9-14 metra), trjám bætt við niður eftir til hægri og brautinni sveigt til vinstri. Það er vatn fyrir framan og til vinstri.

Golden Bell – par-3 brautin í „Amen Corner“ er líklega ein frægasta par-3 braut í öllu golfi.

12. braut  (Golden Bell), 155 yardar (142 metrar), par-3: Þetta er líklega þekktasta par-3 brautin í öllu golfi. Mjög þröngt skotmark, vatn fyrir framan, vandræði að aftan. Á þessari braut hafa skorin verið æði misjöfn, allt frá ásum til 13 högga Tom Weiskopf árið 1980. Hér er kylfuvalið erfitt.

13. braut (Azalea) 510 yarda (466 metra), par-5: Þetta er hin fræga alparósarbraut. Hér þarf að vera nákvæmur af teig og slá á miðja braut til þess að viðkomandi kylfingur hafi færi á að vera inni á flöt í 2 höggum á þessum skarpa „dogleg“, en þetta er heilmikil spákaupmennska eftir að teigarnir voru fluttir aftur árið 2003. Rae áin rennur fyrir framan flötina og svo eru 4 sandglopmur fyrir aftan hæðótta flötina sem er á 4 stöllum.

14. brautin (Chinese Fir), 440 yardar (402 metrar), par-4: Þetta er eina brautin á vellinum þar sem engin sandglompa er, en þrípútt eru algeng á hallandi flötinni. Það eru bara örfáir lendingarstaðir þar sem boltinn rúllar ekki af flöt. Phil Mickelson setti aðhöggið sitt niður á 3. hring, árið 2010 þegar hann vann The Masters.

15. braut  (Firethorn), 530 yardar (485 metrar), par-5: Það veldur kylfingum oft vangaveltum hvort eigi að reyna við flötina í 2 höggum yfir vatnið til að nálgast holuna þar sem Gene Sarazen sökkti 235 yarda (215 metra) 4-trés höggi sínu fyrir albatross árið 1935.

16. braut (Redbud), 170 yardar (156 metrar), par-3: Hér er spilað yfir vatn og á flöt sem hallar skarpt frá vinstri til hægri, en þessi braut mun ávallt tengjast chippi Tiger Woods, 2005, þegar hann vann Chris DiMarco.

Redbud – 16. braut Augusta National

17.braut (Nandina), 440 yardar (402 metrar), par- 4: Einkenni þessarar brautar er tréð sem heitir í höfuðið á Eisenhower (forseta Bandaríkjanna) sem er fyrir framan teig, en veldur sjaldnast miklum vandræðum. Stjórnin á 2. högginu er mun mikilvægari. Jafnframt eru há tré sitthvorum megin við þrönga brautina, þannig að nákvæmni er þörf í upphafshögginu.

Loks er það 18. brautin  (Holly) 465 yardar (425 metrar) par-4: Trén vinstra megin við brautarglompurnar reynast oft högglöngum kylfingum skeinuhætt. Þetta er „dogleg“ til vinstri með flöt sem varin er af 2 sandglompum við vinstri olnboga. Flötin er líka varin af tveimur flatarglompum.

Að lokum: Hægt er að „fljúga“ yfir allar brautir Augusta National með því að smella HÉR: 

Heimild: AFP