Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 7. 2012 | 11:00

The Masters 2012: Föðurhlutverkið gefur Bubba Watson nýja sýn á golfið

Bubba Watson er einn af þeim 5 kylfingum, sem deilir 3. sætinu þegar „The Masters“ er hálfnað. Eins og allir nýbakaðir feður er Bubba nú með nýja sýn á lífið en hann og eiginkona hans Angie ættleiddu 1 mánaðar lítinn prins sem hlotið hefir nafnið Caleb í síðustu viku.

Bubba er miklu spenntari fyrir syninum en að hugsanlega vinna Græna Jakkann.

„Ég var með alveg ágætis sýn á lífið en núna með krakka, þá sér maður að lífið snýst ekki bara um golf.“ sagði Bubba við blaðamenn í dag.

„Ég hef alltaf haft þá trú og nú sannast bara að golf er það sem við höfum fyrir stafni.“

Watson ætlaði að fresta komu sinni til Augusta til þess að geta verið meira heima með Caleb, en Angie (kona hans) heimtaði að hann færi að æfa sig og hann var glaður að komast a.m.k. hjá einu skylduverki föðursins.

„Ég hef ekki skipt um bleyju enn, ég kom mér í burtu áður,“ grínaðist Bubba.

En hvort sem það er tilviljun eða ekki þá hefir hinn örvhenti Watson átt bestu byrjun sína á the Masters í þessari viku. Hann er búinn að spila geysigott golf á Augusta National (69 71) og er bara 1 höggi á eftir Fred Couples og Jason Dufner.

„Í hvert sinn sem maður nær að vera á skori undir pari, þá er það meiriháttar, sérstaklega hér á the Masters, þá á maður góðan dag,“ sagði hann. „Markmið mitt er að hafa ekki áhyggjur af því hvað aðrir eru að gera, bara reyna að vera undir pari. Ef hægt er að vera undir pari á risamóti, þá fer maður upp á skortöflunni.“

Löng dræv hins 33 ára Bubba henta vel Augusta National og hafa gert hann að uppáhaldi áhorfenda, en Bubba er ekkert að hugsa um sigur.

„Það væri gaman að fá einn grænan jakka, en ef ég vinn ekki er það ekki mikið mál,“ sagði hann. „Sonur minn er heima, þannig að augljóslega er það mikilvægara en að reyna að setja niður pútt í móti.“

„Sigur, tap, jafntefli, skiptir ekki máli í skipulagi alheimsins.“