Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 7. 2012 | 09:00

The Masters 2012: Couples og Dufner leiða eftir 2. hring á Mastersmótinu – viðtöl

Fred Couples leiðir „The Masters 2012″ þegar mótið hálfnað ásamt landa sínum, Jason Dufner frá Flórída sem svo sannarlega blómstrar á þessu ári, er efstur eða ofarlega á hverju mótinu í röð.

Vera Couples á toppnum er nokkuð merkileg því í ár eru nákvæmlega 20 ár frá því hann vannn Masters mótið síðast. Nú er hann að keppa við marga kylfinga sem eru margfalt yngri en hann t.a.m. var Rory McIlroy aðeins 2 ára þegar Freddie vann mótið góða fyrir 20 árum, svo hlutirnir séu settir í samhengi.

Eftir 2. hring var tekið viðtal við Fred Couples sem sjá má HÉR: 

Í viðtalinu kemur m.a. fram að The Masters sé uppáhaldsmót Couples og hafi verið það í 28 ár. Leikplan hans hafi verið að spila heilsteypt „sólíd“ golf og gera engar vitleysur. Það ásamt því að setja niður nokkur góð pútt hafi orðið til þess að hann var á mun lægra skori en hann bjóst við. Couples sagði hringinn hafa verið ótrúlegan, m.a. hefði hann fengið fugl á 18. braut. Eins sagði hann að Rory og Sergio hefðu verið fyrir aftan hann og Lee (Westwood) fyrir framan hann og bara það að taka þátt væri undravert og hann væri í skýjunum yfir leik sínum.

En Freddie Couples er ekki einn um að leiða, í toppsætinu með honum er hagfræðingurinn Jason Dufner.

Í viðtali eftir 2. hring við Dufner sagði hann m.a: „Ég geri mér grein fyrir aðstæðunum, ég er að spila á risamóti, ég er að spila í Augusta á „The Masters.“ „Ég er bara að reyna að eiga góða golfhringi, spila vel, vanda mig við höggin mín og læt hitt bara mæta afgangi.“

„Það er miklu meira í gangi þarna en virðist,“ sagði Dufner jafnframt. „Mér finnst ég hafa sömu tilfinningarnar og sama hugsunarganginn og fullt af öðrum strákum þarna, það sést bara ekki eins mikið á mér og sumum öðrum. Þetta (þátttakan í „The Masters“) er prófraun á mann sjálfan.“

Heimild: pgatour.com og www.majorchampionships.com