Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 3. 2013 | 17:30

The Clicking of Cuthbert 6. saga: Eldraunin

Elsti félaginn sat í klúbbhúsinu og fylgdist með yngri kynslóð kylfinga spila golf.  Sérstaklega varð honum starsýnt á 4 manna holl þar sem allt var í klandri. Einn í hollinu sikksakk-aði um völlinn líkt og skip sem elt væri af kafbát. Tveir aðrir í hollinu virtust vera að grafa eftir fjársjóð eða voru þeir að drepa snák? Loks átti sá fjórði afleitt högg og hellti sér með skömmum yfir kylfusveininn sinn.

Hversu fáir það eru nú sem búa yfir rétta hugarfarinu í golfi hugsaði Elsti félaginn. Fyrirmyndarkylfingurinn missir aldrei stjórn á skapi sínu. Elsti félaginn hugsar með sér: „þegar ég spilaði golf missti ég aldrei stjórn á skapi mínu.  Það er satt ég gæti hafa brotið kylfu á hné mínu en ég gerði það stillilega með fullkomna stjórn á skapinu, þar sem kylfan var augljóslega ekki nógu góð.“

Að missa stjórn á skapi sínu í golfi er heimskulegt.  Það breytir engu – linar ekki einu sinni þjáningarnar og það, sem kann að hafa verið að þjaka viðkomandi kylfing.

Hafa ætti orð rómverska keisarans Markúsar Árelíusar (f. 26. apríl 121 – d. 17. mars 180)  í huga: „Hvað sem kann að henda yður þá er það fyrirframákveðið af eilífðinni. Ekkert kemur fyrir neinn, nema hann sé af náttúrunnar hendi fær um að kljást við það.“

Og þannig rifjaðist upp fyrir Elsta félaganum sagan af Mitchell Holmes, sem var margt gott til lista lagt. M.a. var hann eftirsóttur á skemmtunum því hann hermdi snilldarlega eftir litlum og stórum hundi að rífast – sem heillaði auðvitað Millicent Boyd og nú voru þau trúlofuð og Mitchell beið bara eftir launahækkun til þess að geta kvænst henni.

Eins mikið og spunnið var í Mitchell þá átti hann það til að missa stjórn á skapi sínu úti á golfvelli – fiðrildi máttu ekki flögra um á nærliggjandi akri þá truflaði það púttstroku hans. Hann var einn af þeim sem gekk vel á fyrstu 2 holunum en var síðan á 11 höggum á 3. braut og þá brjálaðist hann í skapinu.

Svo var það eitt sinn að vinnuveitandi Mitchell, Alexander Patterson, kom í heimsókn til Elsta félagans og sagðist alls ekki geta gert upp á milli tveggja starfsmanna sinni þ.e. hvor þeirra ætti að taka við stöðu fjármálastjóra og hljóta þ.a.l. launahækkun.

Elsti félaginn stingur upp á golfleik, ekkert leiði betur í ljós innsta eðli mannsins en golfleikur.  Hann sér þegar eftir uppástungu sinni þegar hann heyrir að þeir tveir sem Patterson hefir í huga í stöðuna séu Mitchell og Rupert nokkur Dixon, en sá síðarnefndi hefir þrátt fyrir að vera fremur ógeðfelldur fullkomna stjórn á sér úti á golfvelli.

Hvað á Elsti félaginn nú að taka til ráða? Honum líkar vel við Mitchell og Millicent en sér fyrir að Mitchell muni algjörlega missa sig úti á velli og verða af stöðuhækkuninni.

Gegn betri vitund segir Elsti félaginn Mitchell og Millicent frá golfleiknum fyrirhugaða, vitandi þvílík eldraun þetta yrði fyrir unga manninn og nógu erfið þó hann vissi hvað undir væri.

„Geturðu ekki bara haft stjórn á þér úti á velli, Mitchell elskan? spyr Millicent og Mitchell og Elsti félaginn horfa hræðslulega hvor á annan. Konur einfaldlega segja þessa hluti án þess að hugsa.

En Millicent lætur ekki við það sitja. Fyrir 7 shillinga kaupir hún bók eftir prófessor Orlando Rollitt, „Are You Your Own Master?“ sem auglýst var þannig að Napóleon hefði ekki náð svo langt nema að hafa fullkomna stjórn á sjálfum sér líkt og aðrir fremstu menn heimssögunnar.  Elsti félaginn leit yfir bókina og fannst sem Rollitt hefði stolið og staðfært hugmyndum Markúsar Árelíusar og spurning hvort 2000 ára gamall einkaréttur á þeim hugmyndum væri fallinn úr gildi?

Millicent fannst hún hins vegar hafa gert kjarakaup og færði elskunni sinni bókina.

Í klúbbnum hitti Elsti félaginn í millitíðinni Rupert Dixon, sem glottandi segir honum að hann hafi spilað hring með vinnuveitanda sínum og unnið 6&5 þrátt fyrir að hafa verið óheppinn mestallan tímann.

„Það hlýtur að hafa farið í skapið á þér?“ spurði Elsti félaginn. „Nei,“ svaraði Rupert og glotti. „Það þýðir ekkert. Þá eyðileggur maður bara fyrir sér á næstu braut!“

Elsti félaginn var þegar farinn að búast við að fá fréttir um að Rupert hafi fengið stöðu fjármálastjóra og Patterson myndi ekki einu sinni bjóða Mitchell í golf þegar boðið kom.  Mitchell kemur taugaóstyrkur til Elsta félagans og spyr hvort hann vilji ekki koma með sér og Millicent til stuðnings.  Mitchell dauðsér núna eftir að hafa ekki verið duglegri að lesa bók Rollitt um hvernig eigi að hafa fullkomna stjórn á sér.  Hann segir að sig hafi dreymt um að hafa tekið þátt í Opna breska og þegar hann hafi verið að spila hafi kýr út í haga spurt sig að því af hverju hann skipti ekki yfir í V-grip úr  „interlocking“ gripinu?  Mitchell segist sannfærður um að draumurinn hafi einhverja þýðingu en Elsti félaginn varar hann við að fara að breyta einhverju jafn mikilvægu og gripinu fyrir svo mikilvægan leik.

Það hefst strax á 1. teig Patterson er með heldur óhefðbundið vanaferli en hann er fyrstur á teig.  Fyrst tekur hann tvær æfingasveiflur, tvistar með fótunum fram og tilbaka, svo gáir hann til veðurs til þess að sjá hvort allt sé ekki í lagi, hann tvistar aftur með fótunum, Síðan vaggar hann kylfunni þrisvar sinnum yfir boltanum – gáir aftur til veðurs eins og hann ætli það sko ekki að láta það koma í bakið á sér og síðan lyftir hann kylfunni eins og hann ætli að slá boltann en slær ekki, tekur kylfuna aftur og endurtekur það aftur og í þriðja sinn. Síðan stendur hann hreyfingalaus eins og indverskur fakír sem er að íhuga eilífðina. Hann lyftir kylfuna aftur og setur hana bakvið boltann – síðan fer skjálfti um hann allan  hann tekur kylfuna hægt aftur og drævar 150 yarda (137 metra) þráðbeint.

„Gerir hann þetta alltaf?“ spyr Mitchell skelfdur.  „Alltaf“ svarar Elsti félaginn. „Það er úti um mig“ svarar aumingja Mitchell. „Enginn getur spilað golf með þessum eins-manns-sirkus án þess að brjálast!!!“

Þá les Millicent úr bók Rollitt: „Munið að þolinmæði er einn meiður réttlætis og að menn brjóta oft af sér án ásetnings.“  „Áður en þú drævar elskan mundu að láta ekkert vera undir tilviljun komið!“

Mitchell gekk ákveðnum skrefum á teig.  Hann drævaði boltanum 200 yördum (183 metrum) eftir brautinni átti frábært aðhögg og var á pari með einhverju fallegasta pútti sem Elsti félaginn hafði séð á 1. braut. Hann hafði fylgt reglum Markúsar Árelíusar fram í fingurgóma.

Það sama endurtók sig á 2. brautinn (Vatnabrautinni) og 3. brautinni þar sem slá þurfti yfir gjá – Mitchell var kominn 3 yfir.  Elsta félaganum varð léttara um andardráttinn – hver kylfingur á sína góðu daga og þessi virtist lofa góðu fyrir Mitchell.

Elsti félaginn samt áhyggjufullur eftir að hann heyrði Mitchell gera grín að vanaferli Pattersons því að vera góður með sig úti á velli er jafn slæmt og óöryggi. Og þannig gerðist það á 4. holu að Mitchell toppaði boltann og Patterson vann holuna. Michell var ekki nándar nærri eins öruggur um sig. Hann tapaði líka næstu og sú 6. féll á jöfnu.  Hann tapaði 7. og 8. féll á jöfnu.

9. holan gat verið auðveld par-4 en á henni voru samt hindranir eins og vatnið og trén. Patterson átti teig og það virtist pirra Mitchell. Hann virtist taugaóstyrkur. Patterson sló venju skv. 137 metra beina upphafshöggið sitt og sneiddi hjá öllum hindrunum.  Áhrif prófessor Rollitt á Mitchell voru farin að dala. Hann tapaði holunni. Patterson var ánægður. „Skemmtilegur og jafn leikur,“ sagði hann.

„Skemmtilegur“ hvæsti Mitchell. Elsti félaginn og Millicent voru áhyggjufull.  En Michell hélt áfram og kenndi flatarnefndinni um.

„Skapbráður ungur maður“ spurði Patterson vin sinn Elsta félagann. Elsti félaginn ákvað að koma Mitchell til varnar.  Hann sagði: „Við erum nú búnir að vera vinir svo lengi Patterson að mér finnst ég geta sagt þér að hægur leikur þinn fer ótrúlega í taugarnar á honum og vindhögginn tvö sem þú tekur á teig áður en þú slærð.“

„Ég er svo gamall að það er of seint að breyta venjum mínum nú“ svaraði Patterson.

Á seinni 9 mátti Millicent ekki ganga með, Mitchell sagði að hún truflaði einbeitingu hans. Millicent lét Elsta félagann hafa bókina góðu eftir Rollitt prófessor og tók af honum loforð að lesa upp úr henni fyrir Mitchell, setningarnar sem þau væru búin að undirstrika að kynnu að koma að gagni.

Mest hafði Millicent áhyggjur af Mitchell á 13. teig því þar var nefnilega stórt eplatré og hún vissi að kylfusveinn Mitchell myndi fá sér epli og brakið þegar hann biti í það trufla Mitchell óendanlega.  Á 10. fann Mitchell sitt fyrra form; allt var í stáli milli þeirra Patterson aftur.

Ellefta féll á jöfnu svo og á 12. braut. En á 13. hafði Patterson betur. Sú hola var par-4. Hann var inn á í 3 höggum og einpúttaði meðan Mitchell var inn á í 2 höggum en þurfti 3 pútt.

Alexander sagði þá söguna um vininn sem kallaði til byrjandans: „Hvernig gengur gamli?“  „Framúrskarandi“ svarði byrjandinn. „Ég þurfti bara 3 pútt.“

Sagan fór í taugarnar á Mitchell.  Svo gerðist það á 14. Kylfusveininn beit í eplið og dræv Mitchell fór út af og í gjánna. Elsti félaginn reyndi í ofvæni að finna merkta staðinn í bókinni til að lesa fyrir Mitchell en sá þreif bara bókina af honum og lamdi í hana með drævernum sínum. Síðan hellti hann sér yfir kylfusveininn.  Þar næst sneri hann sér að Patterson og sagði: „Ég gef leikinn.“ „Þú finnur mig í sjónum.“

„Ætlarðu í sund?“  „Nei, að drekkja sjálfum mér!“

Bros braust út á vörum Pattersons. „Ekki gera það vinur minn – Ég var að vonast til að þú yrðir áfram á skrifstofunni til þess að ég gæti gert þig að fjármálastjóra!“

Það varð dauðaþögn. Mitchell greip í Elsta félagann sér til stuðnings. Dauðaþögn – ekkert nema kjams kylfsveinsins á eplinu.

„Meinarðu að þú ætlir að láta mig fá starfið?“ „Þú túlkar orð mín rétt.“

„Ef þú myndir vilja afsaka – það er nokkur í klúbbhúsinu sem ég verð að fara að hitta,“ sagði Mitchell og hljóp síðan eins og fætur toguðu til Millicent.

„Hvað á þetta að þýða?“ spurði Elsti félaginn. „Hvað varð um eldraunina?“

„Hún hefir virkað vel“ sagði Patterson. „Ég hef aðeins þurft að betrumbæta hana og aðlaga aðstæðum en hún virkaði vel.  Þegar ég hugsa mig vel um þá er það sem fyrirtækið þarf, fjármálastjóri sem ég get unnið í golfi. Og ég hef fundið fullkominn mann í starfið. Ég get alltaf unnið hann, sama hversu góður hann er bara með því að pirra hann með því að taka 2 aukaæfingasveiflur á teig.  Þannig mann þarfnast fyrirtæki mitt!“

„En hvað þá með Rupert Dixon?“ spurði Elsti félaginn.

Patterson leit fyrirlitlega á Elsta félagann.„Ég myndi aldrei treysta þeim manni. Þegar ég spilaði með honum og allt gekk á afturfótunum hjá honum, brosti hann bara og sagði ekki orð. Maður sem gerir það, treysti ég ekki fyrir háum peningafjárhæðum.  Það myndi ekki vera öruggt. Hann er ekki heiðarlegur. Hann getur ekki verið það!“  „Og þar að auki“ bætti hann við „vann hann mig 6&5.  Hvað er gott við fjármálastjóra sem sigrar forstjórann 6&5?“